Safna fyrir gluggum með kaffihlaðborði

Kostnaðarsamar framkvæmdir standa nú fyrir dyrum á húsi Karmelsystra á Akureyri. Sem liður í fjáröflun fyrir framkvæmdunum standa nunnurnar fyrir kaffihlaðborði á hjúkrunarheimilinu Hlíð á sunnudaginn.
„Já, það er alltaf eitthvað viðhald á gömlu húsi,” segir systir Marcelina De Almeida Lara sem býr í húsi Karmelsystra að Álfabyggð 4, ásamt tveimur öðrum nunnum. Segir hún að nýlega hafi verið skipt um pípulagnir hjá þeim, en nú sé komið að gluggunum. „Það þarf að skipta um gler í öllum gluggum. Auðvitað væri best að skipta um alla glugga í einu en kannski verðum við að skipta framkvæmdinni upp og taka bara gluggana á efri hæðinni í sumar, því það þarf lyftu í það verk og taka svo hina seinna. Við verðum bara að sjá hvað við náum að safna miklu.”
Hörpuleikur og glæsilegt hlaðborð
Lengi vel ráku nunnurnar daggæslu í hluta hússins en henni var lokað í september 2023. Í dag er húsið nýtt undir ýmiss konar kirkjustarf og þá hýsa nunnurnar oft fólk sem er t.d. að koma utan af landi í aðgerðir á sjúkrahúsinu á Akureyri. Greiða gestir fyrir gistinguna með frjálsum framlögum. „Núna býr líka ein þýsk stúlka hjá okkur, sem er sjálfboðaliði frá Þýskalandi. Hún er hörpuleikari og ætlar að spila á hörpuna á kaffihlaðborðinu,” segir Marcelina, sem sjálf hefur verið nunna í 35 ár.
Nunnurnar baka og búa til flesta réttina sem verða á hlaðborðinu sjálfar, en eins fá þær aðstoð frá vinum, m.a. frá góðum hópi filippeyskra kvenna í kaþólska söfnuðinum. Lofar Marcelina fjölbreyttum réttum á hlaðborðinu, bæði sætum og söltum, og vonast hún til þess að sem flestir sjái sér fært að styrkja þær en salurinn getur tekið 50 manns í sæti í einu.
- Hlaðborðið stendur í tvo tíma eða á milli klukkan 13.30 og 16.30. Aðgangseyrir er 3000 krónur, enginn posi er á staðnum en hægt að millifæra.
- Þeir sem komast ekki á hlaðborðið en vilja styrkja Karmelsysturnar geta lagt inn á þennan reikning: 0565-14-101372 / kt.410601-3380.