Fara í efni
Fréttir

112 dagurinn var í gær – MYNDIR

Segja má að börnin leiki sér þarna að eldinum! Slökkviliðið sýndi gervield sem vakti mikla athygli y…
Segja má að börnin leiki sér þarna að eldinum! Slökkviliðið sýndi gervield sem vakti mikla athygli yngstu kynslóðarinnar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Árlegur 112-dagur var haldinn í gær, 11. febrúar. Slökkvilið Akureyrar var með sýningu á Glerártorgi í tilefni dagsins, þar sem kynntar voru aðferðir við reykköfun, björgun og endurlífgun, liðið kynnti auk þess ýmsan búnað sem það notar og veitti gestum þannig innsýn í störf slökkviliðs- og bráðaliða. Nýr stigabíll slökkviliðsins var einnig til sýnis.

112 er samræmt neyðarnúmer Evrópu og er dagurinn haldinn víða um álfuna til að kynna númerið og starfsemi allra sem tengjast því, efla vitund fólks um mikilvægi þessarar starfsemi og hvernig hún nýtist almenningi. Markmið dagsins er enn fremur að efla samstöðu og samkennd þeirra sem starfa að forvörnum, björgun og almannavörnum og undirstrika mikilvægi samstarfs þeirra og samhæfingar

112-dagurinn er samstarfsverkefni stofnana og félagasamtaka sem annast margvíslega neyðarþjónustu, almannavarnir og barnavernd í landinu. Þau eru: 112, Barnaverndarstofa, Embætti landlæknis, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Landhelgisgæslan, Landspítalinn, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Rauði krossinn, Ríkislögreglustjórinn, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Vegagerðin, Æskulýðsvettvangurinn og samstarfsaðilar um allt land.

Björgunarstigabíll frumsýndur á 112 deginum