Stuðningur áhorfenda getur skipt sköpum

Eftir árs fjarveru er KA/Þór komið aftur í efstu deild kvenna í handbolta en liðið vann öruggan sigur í næstefstu deild á síðasta tímabili og tapaði ekki leik. Fyrsti leikur liðsins á keppnistímabilinu sem nú er að hefjast verður í dag kl. 15:30 í KA-heimilinu, þegar Stjarnan kemur í heimsókn. Í árlegri spá þjálfara og fyrirliða liðanna í efstu deild hafnaði KA/Þór í 7. sæti af 8 liðum.
Jónatan Þór Magnússon þjálfar liðið eins og í fyrra og hann telur alveg eðlilegt að liðinu sé spáð slöku gengi. „Nýliðar hafa ekki oft náð að halda sér uppi en okkar markmið eru háleitari en spáin segir til um,“ sagði Jonni í samtali við akureyri.net. „Við erum meðvituð um að leikirnir í ár verða mun meira krefjandi en í fyrra svo allt þarf að smella hjá okkur til að hlutirnir gangi upp,“ bætti hann við.
Til vinstri Trude Blestrud Håkonsen sem kom í sumar frá Noregi og Susanne Pettersen, hægri megin Anna Þyrí Halldórsdóttir og Matea Lonac.
Sáttur við undirbúningstímabilið og leikmannahópinn
Lið KA/Þórs í vetur verður að mestu byggt upp af ungum og uppöldum heimastúlkum en þrír erlendir leikmenn voru fengnir til liðsins til að styrkja hópinn. Það eru þær Trude Blestrud Håkonsen, sem er örvhent skytta og kemur frá Junkeren í Noregi, og frá austurríska liðinu Greenpower JAGS koma ungversku stöllurnar Bernadett Réka Leiner og Anna Petrovics. Bernadett er markvörður en Anna getur leyst allar stöður fyrir utan. Að auki kom Herdís Eiríksdóttir línukona til liðs við KA/Þór frá ÍBV.

Kristín A. Jóhannesdóttir, Rakel Sara Elvarsdóttir og Tinna Valgerður Gísladóttir.
„Við teljum okkur samkeppnishæf og ætlum svo sannarlega að vera með í baráttunni,“ segir Jonni. Liðið hefur misst þær Selmu Sól Ómarsdóttur, Sif Hallgrímsdóttur, Agnesi Völu Tryggvadóttur og Hildi Magneu Valgeirsdóttur en með þeim leikmönnum sem hafi komið í staðinn segir Jonni að hópurinn sé vel skipaður. „Við erum með flotta blöndu af leikmönnum; ungar og mjög efnilegar en einnig gæðaleikmenn með mikla reynslu. Þessar eldri eru gríðarlega mikilvægar í hópnum okkar og ég vonast til þess að við spilum þannig handbolta í vetur að það verði þess virði að mæta og horfa á,“ segir Jonni.
Jonni þjálfari telur liðið vel samkeppnishæft í deildinni og að þau ætli sannarlega að vera með í baráttunni. Heimavöllurinn verði mikilvægur og stuðningur áhorfenda geti skipt sköpum. „Við þurfum að verja okkur heimavöll vel og við vonumst til þess að Akureyringar beggja megin við ána mæti og styðji okkur,“ segir Jonni og endar samtalið á samviskuspurningu: „Fyrsti leikur er í dag og ég spyr bara: Ætla ekki örugglega allir að mæta?“ Semsagt: KA-heimilið í dag klukkan 15:30.
Frá vinstri: Anna Petrovic, annar ungversku leikmannanna sem komu til KA/Þórs í sumar, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir og Hafrún Guðmundsdóttir . Í fjarska er Herdís Eiríksdóttir sem kom frá ÍBV í sumar.