Fara í efni
Verkmenntaskólinn á Akureyri

Örlög Þórsara aftur í þeirra höndum

Stuðningsmenn Þórsara voru í banastuði þegar sigurinn var í höfn í dag eins og nærri má geta. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þór vann Fjölni 2:1 í dag í næst síðustu umferð Lengjudeildarinnar í knattspyrnu. Handritshöfundi  dagsins virðist hlýtt til Þórs því úrslit annarra leikja voru eins og af óskalista úr Þorpinu; Þór er efstur á ný þar sem Þróttur, sem var á toppnum, tapaði 5:2 fyrir HK og Njarðvík, sem var í öðru sæti, beið lægri hlut fyrir nágrönnum sínum í liði Keflavíkur, 2:1.

Þór er með 42 stig, Þróttur með 41 og Njarðvík 40. Svo skemmtilega vill til að Þróttur og Þór eigast við í lokaumferðinni næsta laugardag þegar ræðst hvaða lið verður efst og vinnur sér sæti í Bestu deildinni og hvaða fjögur fara í umspil um annað laust sæti. 

Njarðvíkingar leika við Grindvíkinga um næstu helgi og eru mun sigurstranglegri en óhætt er að spá mikilli taugaspennu á Þróttarvellinum!

Þrjár breytingar voru á byrjunarliði Þórs frá tapleiknum á Selfossi í umferðinni á undan: miðvörðurinn Yann Emmanuel Affi og vinstri bakvörðurinn Ýmir Már Geirsson sneru aftur eftir leikbann; komu í stað Ragnars Óla Ragnarssonar sem var í banni og Vilhelms Ottó Biering Ottóssonar sem er meiddur. Þá var Hermann Helgi Rúnarsson á miðjunni í stað Einars Freys Halldórssonar sem er erlendis með landsliði 19 ára og yngri – fagnar hann þó ekki 17 ára afmælinu fyrr en eftir rúma viku.

1:0 – CLEMENT BAYIHA
Clement Bayiha gerði fyrra mark Þórs í dag þegar liðlega stundarfjórðungur var að baki. Kristófer Kristjánsson, hægri bakvörður og sprækasti leikmaður Þórs í leiknum, sendi vel fyrir markið utan af kantinum og Bayiha stýrði boltanum í netið af stuttu færi.

Clement Bayiha skorar fyrra mark Þórs eftir laglegan undir Kristófers Kristjánssonar.

  • Orri Þórhallsson jafnaði í lok fyrri hálfleiks þegar hann potaði boltanum í markið innan markteigs, algjörlega óvaldaður, eftir að varnarmenn Þórs sváfu illilega á verðinum. Aðeins tveimur mínútum áður hafði Fjölnismaður þrumað boltanum í þverslá.

SIGURMARKIÐ – FANNAR DAÐI OG SIGFÚS
„Það voru að koma skilaboð“ syngja Mjölnismenn, hinn háværi og skemmtilegi stuðningsmannahópur Þórsara, þegar þeirra menn skora eða tíðindi berast úr öðrum leikjum. Þannig létu þeir vita í hvert skipti sem HK skoraði gegn Þrótti og þegar Keflvíkingar skoruðu gegn Njarðvík. Allt var samkvæmt „óskalistanum“ eins og áður sagði, nema hvað Þórsarar þurftu að skora og tryggja sér sigur á Fjölnismönnum til að fullkomna daginn. Margir voru orðnir óþreyjufullir því lítið gekk í seinni hálfleiknum og gestirnir voru óþægilega mikið með boltann en svo gerðist það ...

Eftir fallegan undirbúning Hermida og Kristófers sendi sá síðarnefndi á Fannar Daða Malmquist Gíslason, sem kom inná rúmlega 10 mínútum fyrr, sá kraftmikli Þórsari lék inn í vítateiginn vinstra megin og var á leið framhjá Sigurjóni Daða þegar markvörðurinn felldi hann. Gunnar Oddur Hafliðason, prýðilegur dómari leiksins, benti umsvifalaust á vítapunktinn, fram steig Sigfús Fannar Gunnarsson og skoraði af öryggi. Markvörðurinn henti sér í suðvestur en framherjinn sendi boltann í norðausturhorn marksins, svo notuð sé alvöru akureyrska!

Vítaspyrnan – brotið og markið.

FYRIRLIÐINN MIKILVÆGUR
Aron Birkir Stefánsson, markvörður og fyrirliði Þórs, varði tvisvar mjög vel í leiknum, í bæði skiptin þrumuskot utan úr teig; fyrst þegar tæpur hálftími var liðinn af fyrri hálfleik og staðan enn 1:0 og síðan þegar 20 mínútur voru eftir og staðan 1:1.

Spennan verður í hámarki um næstu helgi þegar lokaumferð Lengjudeildarinnar fer fram. Taugarnar voru augljóslega þandar í dag hjá efstu liðunum, Þróttur og Njarðvík töpuðu og Þórsarar léku ekki eins og best þeir geta. En það gleymist fljótt fyrst leikurinn vannst. Um næstu helga verður úr fleiri leikmönnum að velja; miðvörðurinn Ragnar Óli kemur úr banni og miðjumennirnir Einar Freyr, sem áður var nefndur, og Aron Ingi Magnússon, sem var frá í dag vegna smávægilegra meiðsla, verða klárir í slaginn á ný.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni