Verslunarmannahelgi: Hvernig verður veðrið?

Að gá til veðurs er góður siður og nauðsynlegur fyrir mörg okkar. Hér er áfram haldið á sömu braut og undanfarna daga, skoðum veðurspár í máli og myndum.
Bjart í dag, blautt í nótt
Veðurspá Veðurstofu Íslands frá því í morgun gerir ráð fyrir vaxandi suðaustanátt með rigningu, 8-15 m/sek. síðdegis, en hægari og yfirleitt björtu veðri norðaustantil. Búist er við suðaustanátt, 13-20 m/sek., í kvöld og talsverðri rigningu sunnan- og vestanlands. Suðaustan 8-15 m/sek. og rigning í kvöld og nótt á Norðaustur- og Austurlandi.
Á morgun mun svo ganga í sunnan- og suðaustanátt, 10-18 m/sek., með skúrum, hvassast vestantil. Léttir til á Norður- og Austurlandi.
Hiti 10 til 20 stig, hlýjast norðaustanlands.
Með veðurspánni fylgir svo eftirfarandi athugasemd veðurfræðings: „Útlit er fyrir allhvassa suðaustanátt á suðvestanverðu landinu í kvöld auk talsverðrar rigningar á Suður- og Suðausturlandi. Varasamar aðstæður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og tjöld geta fokið.“
Veðurhorfur um verslunarmannahelgina
Í gær var gaf Veðurstofa Íslands út almennt yfirlit fyrir helgina:
- Ört dýpkandi lægð nálgast úr suðvestri og mun stýra veðrinu næstu daga.
- Gul viðvörun vegna vinds á Suðurlandi og miðhálendinu annað kvöld og fram á aðfaranótt laugardags.
- Aðstæður geta verið varasamar fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og tjöld geta fokið.
- Hætta á grjóthruni, yfirborðsskriðum og farvegabundnum aurskriðum við brattar hlíðar, einkum sunnan- og vestanlands.
- Ferðalangar eru hvattir til að fylgjast með:
- veðurviðvörunum Veðurstofunnar á vedur.is
- og færð og aðstæðum á umferdin.is
- Bjart með köflum norðaustantil og dregur úr vindi þar um helgina.
Helgaryfirliti Veðurstofunnar fylgdi svo eftirfarandi veðurdagatal:
Föstudagur 1. ágúst
Ört dýpkandi lægð nálgast landið úr suðvestri og mun hún stýra veðrinu næstu daga. Þá er útlit fyrir vaxandi suðaustanátt, 8-15 m/s seinnipartinn og dálítil rigning með köflum, en að mestu bjart á norðaustanverðu landinu.
Um kvöldið ganga skil frá lægðinni yfir landið. Þá hvessir enn frekar á suðvestanverðu landinu, suðaustan 10-18 m/s þar og gul viðvörun vegna vinds tekur gildi kl. 21:00 á Suðurlandi og miðhálendinu fram á aðfaranótt laugardags. Þetta eru varasamar aðstæður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og tjöld geta fokið. Einnig er útlit fyrir talsverða úrkomu sunnan- og suðaustantil á landinu fram á laugardagsmorgun.
Laugardagur 2. ágúst
Á laugardag er útlit fyrir suðlæga átt, 8-15 m/s og rigningu með köflum, en síðdegis hvessir heldur vestanlands. Bjart með köflum á Norðausturlandi og dregur smám saman úr vindi austanlands þegar líður á daginn.
Sunnudagur 3. ágúst
Á sunnudag er útlit fyrir suðvestan 5-13 m/s og skúrir, en áfram bjartara norðaustantil. Hægari og úrkomuminna á sunnudagskvöld. Hiti yfirleitt á bilinu 10 til 20 stig, hlýjast á Norðausturlandi.
Viðvaranir á suðurströndinni og hálendinu
Veðurstofa Íslands hefur gefið út gular veðurviðvaranir fyrir hluta suðurstrandarinnar og Vestmannaeyjar vegna vindstyrks og úrkomu, eins og greint var frá í gær, og í dag bætist viðvörun fyrir hálendið við, eins og myndin hér að neðan sýnir.
Áfram hlýtt í veðri
Myndin hér að neðan er af vefnum gottvedur.is, sem Veðurstofa Íslands rekur, og sýnir hádegisveðrið samkvæmt spá í dag og næstu þrjá daga. Áfram megum við búast við hlýju veðri á Akureyri, en örlítið mismunandi hvernig baráttan á milli sólar og skýja verður á hverjum stað.
Þægilegur blástur í blíðunni?
Á veðurvef Einars Sveinbjörnssonar, Blika.is, eru næstu dagar eins og myndin hér að neðan sýnir. Hiti 12-16 stig heiðskírt á laugardag og bjart hina dagana. Einhver vindur í dag og á laugardag og sunnudag, ef til vill bara þægilegur blástur í blíðunni.
Besta veðrið er á hreyfingu
Græni punkturinn á Íslandskortinu á vefnum bestavedrid.is færist nær Akureyri. Myndin hér að neðan sýnir spá fyrir tímann kl. 15-17 í dag.
Hér að neðan má svo sjá myndrænu spána fyrir allt landið næstu daga, tekið kl. 15 á hverjum degi.
Föstudagur 1. ágúst kl. 15
Laugardagur 2. ágúst kl. 15
Sunnudagur 3. ágúst kl. 15