Fara í efni
Þór/KA

Ljóð í hljóði – falleg tenging listrænna feðga

Myndir: Haraldur Ingólfsson

Feðgarnir Þórarinn og Halldór Eldjárn frömdu ljóð í hljóði á Minjasafninu á Akureyri á samnefndum viðburði sem haldinn var í Minjasafninu á Akureyri á fimmtudagskvöld.

Þórarinn, meistari orðanna, mjúkur en þó beittur, rámur og ljúfur í senn, las vel valin ljóð og prósa, lék sér að orðum og merkingu eins og honum er næstum einum lagið, kallaði fram bros og hlátur hjá gestum sem fylltu sætin sem í boði voru. Enginn var svikinn. Einlæg og falleg kvöldstund og auðvitað eiga Eldjárnsfeðgar heima á minjasafni. Staðarvalið ljóðrænt í sjálfu sér.

Þórarni er einkar lagið að segja sjálfsagða hluti á óvæntan, hnyttinn og skoplegan hátt, í senn hefðbundinn og framúrstefnulegur. Halldór, sem er tónlistarmaður og forritari, skapar heillandi hljóðheim undir lestri föður síns, á köflum eins og svæfandi slökunartónlist undir rámum lestrinum, á köflum taktfastan líðandi prósa í hljóði undir prósa eða ljóði föðurins.

Hvort kom á undan ljóð eða hljóð, gildir einu fyrir hlustanda í núinu. Hljóð við ljóð eða ljóð við hljóð, allt rann saman í þægilega heild þegar einu verki lauk og annað tók við, feðgarnir saman á sviðinu, Þórarinn þegir og bíður eftir rétta augnablikinu, augnsamband og jafnvel örlítil höfuðhreyfing, Halldór kinkar kolli og Þórarinn hefur lesturinn. Þannig hljóp kvöldið frá þeim sem á hlýddu.

Þegar Þórarinn hafði lokið lestrinum benti hann á að nokkrar af bókum hans væru falar hjá útgefandanum á hagstæðu verði. Útgefandinn reyndist vera eiginkona hans, Unnur Ólafsdóttir, veðurfræðingur á eftirlaunum. Forlagið þeirra, Gullbringa, einblínir á höfundarverk Þórarins og útvegar kaupendum bækur beint frá býli. Blaðamaður, aðdáandi Þórarins í áratugi, lét undan freistingunni og festi sér nýjustu ljóðabókina, jarðtengd norðurljós. Halldór hannaði kápuna og sá um umbrot og því kom ekki annað til mála en að biðja feðgana báða um áritun. Sem þeim fannst sjálfsagt mál.