Fara í efni
Þór/KA

Stórkostlegt mark og þrjú mjög dýrmæt stig

Hallgrímur Mar Steingrímsson fagnaði stórkostlegu marki sínu af mikilli innlifun og sannarlega var tilefni til. Þetta var fyrsta mark hans í deildinni í sumar, lítið eftir af leiknum og því líklegt að það tryggði KA þrjú afar dýrmæt stig. Myndir: Ármann Hinrik

Hallgrímur Mar Steingrímsson tryggði KA sanngjarnan sigur og þrjú gríðarlega dýrmæt stig í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, með stórglæsilegu marki 10 mínútum fyrir leikslok í 1:0 sigri á Aftureldingu á heimavelli í gær.  Fögnuður leikmanna og stuðningsmanna KA var eðlilega mikill að leikslokum; þungu fargi létt af öllum.

Þetta var fyrsta mark Hallgríms í deildinni í sumar og þvílík leið til að brjóta ísinn: varnarmaður sótti að Hallgrími þar sem hann var með boltann nokkrum metrum utan vítateigs en þessi magnaði, markahæsti maður í sögu KA náði að skjóta með vinstra fæti og boltinn söng í netinu, efst í vinstra horninu!

Jökull Andrésson varð að játa sig sigraðan þegar Hallgrímur Mar Steingrímsson bauð upp á þrumufleyg utan vítateigs: boltinn söng í netinu við samskeytin!  KA-menn fögnuðu að vonum innilega.

Með sigrinum fór KA úr fallsæti upp í 10. sæti, er með átta stig eftir jafn marga leiki, tveimur stigum á undan ÍA sem er á botninum og einu stigi á undan FH sem mætir Breiðabliki í kvöld, þegar umferðinni lýkur.

KA hafði ekki skorað í 277 mínútur í deildinni þegar leikurinn hófst. Bjarni Aðalsteinsson gerði sigurmarkið (3:2) gegn FH á 83. mínútu í 4. umferð mótsins 27. apríl en síðan komu þrír leikir án marks: ÍA - KA 3:0, KA - Breiðablik 0:1 og KA - ÍBV 0:0. Afturelding hafði ekki skorað í útleikjunum þremur í sumar.

Í ljósi þessa bjóst líklega enginn við markaskúpu og hana var enda ekki að sjá á matseðlinum sem liðin báru fram í fyrri háfleik. Hann var bragðdaufur og ekki mikið fyrir augað. Eftir 20 mínútur komst Jakob Snær Árnason þó í ágætt færi eftir fyrirgjöf Hallgríms Mars frá vinstri en skot hans fór í varnarmann og framhjá markinu. Þá átti Marcel Römer skot frá vítateigslínu, einnig framhjá.

Ívar Örn Árnason og félagar hafa nú haldið markinu hreinu í tveimur deildarleikjum í röð.

Fyrri hluti seinni hálfleiks var sama marki brenndur. Liðin tóku enga áhættu en KA-menn stjórnuðu ferðinni; höfðu öll tök á leiknum, gestirnir héldu boltanum þokkalega á köflum en reyndu aldrei á Steinþór markvörð KA. Sköpuðu einu sinni hættu í seinni hálfleik; Georg Bjarnason skallaði í þverslá eftir hornspyrnu, þegar sjö mín. lifðu leiks, skömmu eftir að Hallgrímur gerði sigurmarkið.

KA-menn voru áræðnari í seinni hálfleiknum og ekki munaði miklu að Jakob Snær Árnason næði forystu þegar 25 mín. voru eftir. Hann skallaði þá í stöng eftir fyrirgjöf Hallgríms frá vinstri, boltinn hrökk út í teig og þegar skot kom á markið snerti Ásgeir Sigurgeirsson boltann laglega með hælnum en skot hans fór rétt framhjá markinu.

Aftur munaði aðeins hársbreidd að KA kæmist í 2:0 í blálokin eftir skyndisókn. Enn var Hallgrímur Mar á ferðinni, átti þá glæsilega sendingu á Jóan Símun Edmundsson, Færeyingurinn komst einn gegn markverðinum en skot hans fór í stöngina.

Hrannar Björn Steingrímsson kom inná þegar tæplega kortér var liðið af seinni hálfleik og átti mikilvægan þátt í frábæru marki bróður síns.

Frábært mark

Miðað við stöðu mála í deildinni lagði KA skiljanlega áherslu á að gefa ekki færi á sér í gær; liðið fékk 15 mörk á sig í fyrstu sex leikjunum, hélt í fyrsta skipti hreinu í Eyjum í umferðinni á undan og fyrsta markmið í gær var greinilega að halda gestunum fjarri markinu og það næsta að skora til að vinna. Því má segja að leikplanið hafi fengið fullkomlega upp.

Mark Hallgríms Mars var stórglæsilegt sem fyrr segir. Litlu munaði að boltinn færi út af þegar Ásgeir Sigurgeirsson skallaði hann eftir langa sendingu Steinþórs markvarðar en Hrannar Björn hélt honum snilldarlega inná. Eftir klafs kom Bjarni Aðalsteinsson boltanum til Hallgríms sem gerði út um leikinn með mögnuðu skoti.

Sjón er sögu ríkari:

 

Magnúsar Björnssonar fyrrverandi formanns KA, sem lést nýlega á 97. aldursári, var minnst fyrir leikinn.

Gamli knattspyrnukappinn Jónas Hallgrímsson, faðir Hallgríms þjálfara KA, faðmar hetjuna Hallgrím Mar Steingrímsson að leikslokum.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni