Bætti brautarmetið í 100 km um 90 mínútur

Elísa Kristinsdóttir bætti brautarmet kvenna í 100 km í utanvegahlaupinu Súlur vertical á Akureyri dag um hvorki meira né minna en 90 mínútur! Elísa hljóp vegalengdina á 10 klukkutímum, 45 mínútum og 17 sekúndum og fyrsti karlinn, Felix Starker, kom rúmum klukkutíma á eftir Elísu í mark.
Um 650 hlauparar tóku þátt í viðburðinum sem fram fór í blíðskaparveðri. Hægt var að velja um fjórar mislangar og krefjandi vegalengdir.
48 hlauparar lögðu af stað í lengstu vegalengdina, Gyðjuna 100 km hlaup með samanlagt 3600 m hækkun. Lagt er upp frá Goðafossi, hlaupið yfir í Fnjóskadal og þaðan yfir Vaðlaheiði og leirurnar inn í Kjarnaskóg, upp á bæjarfjallið Súlur, inn á Glerárdal og síðan niður í miðbæ Akureyrar.
Elísa Kristinsdóttir, í miðjunni, hljóp 100 km á frábærum tíma – bætti brautarmet kvenna um 90 mínútur. Til vinstri er Þórdís Jónsdóttir sem varð önnur og Katrín Ýr Árnadóttir, hægra megin, varð í þriðja sæti í 100 km. Mynd: Skapti Hallgrímsson
Elísa Kristinsdóttir kom fyrst allra í mark á nýju brautarmeti kvenna sem fyrr segir, á tímanum 10:45:17 klst og bætti brautarmet Andreu Kolbeinsdóttur frá því í fyrra um hvorki meira né minna en 90 mínútur. Hún var rúmri klukkustund á undan fyrsta karlinum í mark en það var Felix Starker sem var fyrstur karla á tímanum 11:51:18 klst.
Rúmlega 60 hlauparar spreyttu sig á Tröllinu sem er 43 km leið með tæplega 2000 m hækkun þar sem hlaupið er í krefjandi landslagi upp á bæjarfjallið Súlur og áfram inn eftir fjallshryggnum inn á Glerárdal áður en haldið er til byggða aftur.
Þorbergur Ingi Jónsson var fyrsti karlinn í mark í Tröllinu á tímanum 4:01:58 klst. og bætti brautarmet Þorsteins Roy Jóhannssonar frá árinu 2023 um rúma mínútu. Fyrsta konan í mark var Hildur Aðalsteinsdóttir á tímanum 5:08:35 klst.
130 manns hlupu Súlur sem er 29 kílómetra leið þar sem hlaupið er úr Kjarnaskógi, upp á Súlur og svo niður í bæ. Elín Edda Sigurðardóttir var fyrst kvenna á tímanum 3:06:05 klst og Sigurjón Ernir Sturluson var fyrstur karla á tímanum 2:31:27 klst.
Fjölmennasta vegalendin var Fálkinn en þar voru um 390 manns skráðir til leiks. Fálkinn er 19 kílómetra hlaup úr Kjarnaskógi, upp á Súlubílastæði og þaðan niður í miðbæ. Pétur Haukur Jóhannesson var fyrstur karla í mark í Fálkanum á tímanum 1:23:04 klst og Anna Berglind Pálmadóttir var fyrst kvenna á tímanum 1:27:38 klst.
Hér eru úrslit og tímar þriggja efstu í öllum vegalendum en nánari upplýsingar má finna inni á timataka.net og á sulurvertical.is:
Gyðjan 100 km
Konur
- Elísa Kristinsdóttir 10:45:17
- Þórdís Jónsdóttir 15:50:23
- Katrín Ýr Árnadóttir 15:59:11
Karlar
- Felix Sterker 11:51:18
- Sigfinnur Björnsson 12:21:11
- Sölvi Snær Egilsson 13:06:29
Tröllið 43 km
Konur
- Hildur Aðalsteinsdóttir 5:08:35
- Rannveig Oddsdóttir 5:22:31
- Sigríður Þóra Birgisdóttir 5:48:29
Karlar
- Þorbergur Ingi Jónsson 4:01:58
- Einar Árni Gíslason 4:34:28
- Baldvin Ólafsson 4:41:10
Súlur 28 km
Konur
- Elín Edda Sigurðardóttir 3:06:05
- Aðalheiður Aðalsteinsdóttir 3:17:20
- Ágústa Edda Björnsdóttir 3:17:29
Karlar
- Sigurjón Ernir Sturluson 2:31:27
- Grétar Örn Guðmundsson 2:42:31
- Guðni Siemsen Guðmundsson 2:59:38
Fálkinn 19 km
Konur
- Anna Berglind Pálmadóttir 1:27:38
- Fanney Þorbjörg Guðmundsdóttir 1:30:56
- Arndís Ýr Hafþórsdóttir 1:38:45
Karlar
- Pétur Haukur Jóhannesson 1:23:04
- Ásgeir Daði Þórisson 1:23:10
- Viktor Orri pétursson 1:23:21
Meira síðar