Fara í efni
Þór

Þór fær Stjörnuna í heimsókn í bikarnum

Ingimar Arnar Kristjánsson skorar gegn í Lengjubikarkeppninni í Boganum fyrr á þessu ári. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar fá lið Stjörnunnar í heimsókn í dag í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu, Mjólkurbikarkeppninnar. Viðureignin á Þórsvellinum (VÍS-velli) hefst klukkan 18.00.

Þau gleðitíðindi berast úr herbúðum Þórs að danski miðjumaðurinn Marc Rochester Sörensen muni taka þátt í leiknum í dag, þótt ekki hafi fengist staðfest að hann verði í byrjunarliðinu.

Sörensen hefur ekkert komið við sögu síðan 14. mars þegar Þórsarar töpuðu 1:0 fyrir Breiðabliki í undanúrslitum Lengjubikarkeppninnar í Boganum. Hann fór þá af velli um miðjan seinni hálfleikinn og hefur glímt við meiðsli síðan. Daninn var einn besti leikmaður liðsins í fyrra, gífurlega mikilvægur hlekkur og ljóst að það mun styrkja liðið þegar hann verður upp á sitt besta á nýjan leik.

Stjörnumenn eru í sjöunda sæti Bestu deildar Íslandsmótsins en Þórsarar í áttunda sæti Lengjudeildarinnar, næst efstu deildar Íslandsmótsins.  

Liðin mættust síðast í Lengjubikarkeppninni í Boganum 18. febrúar og Þórsarar unnu þá stórsigur, 5:1. Þórsliðið lék vel þann dag en þó er ekki til neins að miða við þann leik þegar menn spá í spilin fyrir viðureign dagsins því Garðbæingar mættu með undarlega ungt lið til leiks, stráka úr 2. aldursflokki.

Mörk Þórs í umræddum leik gerðu Rafael Victor 2, Ingimar Arnar Kristjánsson, Egill Orri Arnarsson og Aron Ingi Magnússon.

Spennandi verður að sjá bardaga liðanna í dag. Staða í deildarkeppni skiptir sjaldnast máli þegar bikarkeppnin er annars vegar og óhætt að reikna með því að þótt Stjarnan sé án efa talin sigurstrangslegri, hvort Þórsarar náði að leggja gestina að velli og komast í fjögurra liða úrslit.

Upphitun stuðningsmanna hefst í félagsheimilinu Hamri klukkan 16.00. Rjómablíða er á Akureyri þessa stundina og verður í kvöld. Spáð er 15 stiga hita, sól og norðan andvara. Gerist varla betra.

Sigurður Heiðar Höskuldsson þjálfari Þórs til vinstri, og Sveinn Leó Bogason aðstoðarþjálfari. Mynd: Skapti Hallgrímsson