Fara í efni
Þór

Þór burstaði KR sem gaf lykilmönnum frí

Fannar Daði Malmquist Gíslason skorar fjórða og síðasta mark Þórs gegn KR í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar fóru létt með KR-inga í Lengjubikarkeppninni í knattspyrnu í Boganum í dag – úrslitin 4:0. Liðin höfðu bæði unnið alla þrjá leikina í keppninni til þessa og margir biðu spenntir eftir viðureign toppliða 3. riðils A-deildar. 

Þegar leikskýrslan var gefin út kom hins vegar í ljós að flestir lykilmenn KR nutu frídags og Reykjavíkurliðið tefldi fram strákum úr 2. flokki auk þriggja reyndra kappa, Arons Þórðar Albertssonar og Þórsaranna Atla Sigurjónssonar og Arons Kristófers Lárussonar.

Bjarki Þór Viðarsson kom Þór á bragðið strax á 5. mínútu með fyrsta markinu og Marc Rochester Sörensen gerði annað markið á 37 mín. Aron Ingi Magnússon kom Þór í 3:0 á upphafsmínútum seinni hálfleiks og Fannar Daði Malmquist fullkomnaði verkið fimmtán mín. fyrir leikslok.

„Erfið æfingavika að baki,“ svaraði Gregg Ryder þjálfari KR þegar Akureyri.net spurði hvers vegna hann hefði ekki teflt fram sterkara liði. Þegar blaðamaður lýsti undrun sinni varð Ryder ekki síður undrandi og sagði það starf sitt að velja liðið.

Þetta er í annað skipti í keppninni sem lið af borgarhorninu mætir til leiks gegn Þór án flestra lykilmanna. Stjarnan gerði reyndar enn betur á dögunum, ef svo má segja; gaf öllum leikmönnum aðalliðsins frí. Þeir voru nýkomnir úr æfingaferð erlendis frá.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Aron Ingi Magnússon fagnar innilega með Fannari Daða eftir að sá síðarnefndi gerði fjórða mark Þórs í dag. Aron Ingi hefur skorað í öllum fjórum leikjum Þórs í Lengjubikarkeppninni í ár.