Fara í efni
Þór

Tap á Hlíðarenda og sætaskipti við Val

Leikmenn Þórs fögnuðu innilega þegar þær lögðu Íslandsmeistarana með sex stiga mun í Höllinni í desember. Leikar snérust við í kvöld þegar Valur vann á sínum heimavelli með sex stiga mun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þór og Valur mættust í B-hluta Subway-deildar kvenna í körfubolta í kvöld. Valskonur höfðu sex stiga sigur á sínum heimavelli og mjökuðu sér upp í 6. sæti deildarinnar, eða efsta sæti B-hlutans, á kostnað Þórskvenna.

  • Skorið eftir leikhlutum: 23:22 – 15:16 – 38-38 – 25:18 – 27:28 – 90:84

Leikurinn var jafn allan fyrri hálfleikinn, liðin skiptust á að leiða og unnu hvort stinn leikhlutann með einu stigi. Jafnt eftir fyrri hálfleikinn, 38-38. Þriðji leikhlutinn gekk ekki sem skyldi hjá Þór og gengu Valskonur á lagið, náðu mest 12 stiga forskoti. En Þórsarar gáfust ekki upp náðu næstum að éta upp forskotið í byrjun fjórða leikhluta, munurinn kominn niður í tvö stig, 66-64, þegar tæpar sjö mínútur voru eftir. En heimakonur í Val svöruðu og náðu aftur góðu forskoti sem Þór tókst ekki að vinna upp. Munurinn sex stig þegar upp var staðið. 

Lore Devos var stigahæst í Þórsliðinu með 27 stig og Maddie Sutton öflug í fráköstunum að vanda, tók 19 fráköst, ásamt því að skora 17 stig. Eva Wium Elíasdóttir skoraði 12 stig, Hrefna Ottósdóttir 11 og Hulda Ósk Bergsteinsdóttir tíu.

Þessi úrslit þýða að liðin höfðu sætaskipti. Valur hefur nú unnið níu leiki og er í efsta sæti B-hlutans, eða 6. sæti deildarinnar í heild, en Þór fór niður í 2. sæti B-hlutans, eða 7. sæti deildarinnar. Þegar deildarkeppninni lýkur tekur við úrslitakeppni átta efstu liða, fimm úr A-hlutanum og þriggja efstu í B-hlutanum. Ljóst er að Valur og Þór enda í 6. og 7. sæti deildarinnar aðeins spurning hvort liðin hafa aftur sætaskipti. Eins og staðan er í dag myndu þessi lið mæta Njarðvík og Grindavík í átta liða úrslitum deildarinnar.