Fara í efni
Þór

Svart og hvítt hjá Þór en sannfærandi sigur

Þórsarar fögnuðu að vonum innilega þegar þeir skoruðu í kvöld og ekki minna að leikslokum. Kristófer Kristjánsson kom þeim yfir á 60. mínútu og fagnar hér með tilþrifum ásamt Aroni Inga Magnússyni, til hægri, og Birgi Ómari Hlynssyni sem kemur á flugi til þeirra félaga. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar unnu sanngjarnan sigur á Gróttu á heimavelli í kvöld, 3:1, í Lengjudeildinni í knattspyrnu. Eftir vonbrigði undanfarið – einn sigur, eitt jafntefli og þrjú töp í síðustu fimm leikjum – hrukku Þórsstrákarnir í gang í seinni hálfleik og gerðu þrjú mörk en Grótta gerði eina mark fyrri hálfleiks.

Þungu fargi var létt af mörgum Þórsaranum í kvöld, engum þó líklega eins og framherjanum Rafael Victor, þegar hann skoraði undir lok leiksins. Rafael gerði 13 mörk fyrir Njarðvík í deildinni á síðasta ári, var fenginn til Þórs í því skyni að halda þeirri iðju áfram, en hafði ekki skorað nema tvisvar í deildinni fyrir leikinn í kvöld – bæði mörkin snemma í maí.

Fyrri hálfleikurinn í kvöld var afar bragðdaufur svo ekki sé fastar að orðið kveðið. Pétur Theódór Árnason skoraði fyrir Gróttu á lokamínútum hálfleiksins en annað var ekki sérlega minnisstætt.

Það var hins vegar gjörbreytt Þórslið sem kom út völl til seinni hálfleiks. Sjálfstrausti virtist hafa verið dælt í leikmenn í búningsklefanum og þeir tóku völdin.

Ragnar Óli Ragnarsson braut ísinn með hörkuskalla eftir hornspyrnu á 54. mínútu og fljótlega náði Kristófer Kristjánsson forystunni með skoti af stuttu færi, aftur eftir hornspyrnu.

Rafael Victor tryggði sigurinn svo endanlega þegar tæpar fjórar mínútnar voru liðnar af uppbótartíma. Hann skoraði þá úr markteignum eftir góðan sprett og fyrirgjöf Elmars Þórs Jónssonar.

Leikskýrslan

Meira síðar

Ragnar Óli Ragnarsson var eðlilega kampakátur eftir að hann jafnaði metin í kvöld. Þetta var fyrsta mark Ragnars í deildinni í sumar. Mynd: Skapti Hallgrímsson