Fara í efni
Þór

Stelpurnar í KA/Þór byrjuðu með stórsigri

Nýliðinn í liði KA/Þórs, hin þrautreynda Susanne Denise Pettersen frá Noregi, sækir að vörn Hauka 2 í dag. Hún gerði 5 mörk í leiknum. Myndir: Þórir Ó. Tryggvason

Stelpurnar í KA/Þór byrjuðu með látum í dag þegar keppni hófst í Grill 66 deildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins í handbolta. Þeim var spáð sigri í deildinni í árlegum samkvæmisleik leikmanna og þjálfara og sýndu strax mátt sinn og megin. KA/Þór burstaði B-lið Hauka úr Hafnarfirði í KA-heimilinu í dag með 18 marka mun. Lokatölur urðu 33:15 eftir að staðan var 18:7 í hálfleik.

Nýliðinn í liði KA/Þórs, hin þrautreynda Susanne Denis Pettersen frá Noregi, gerði fyrsta mark leiksins og viðureignin var varla byrjuð þegar úrslitin voru í raun ráðin. KA/Þór komst nefnilega í 8:0 og gestirnir gerðu ekki fyrsta markið fyrr en eftir tæpar 13 mínútur, breyttu stöðunni þá í 8:1.

Mörk KA/Þórs: Anna Þyrí Halldórsdóttir 6, Lydía Gunnþórsdóttir 5, Susanne Denise Pettersen 5, Ólöf Kristín Þorsteinsdóttir 3, Selma Sól Ómarsdóttir 3, Telma Lísa Elmarsdóttir 2, Ólöf Marín Hlynsdóttir 2, Bergrós Ásta Guðmundsdóttir 2, Elsa Björg Guðmundsdóttir 2, Hildur Magnea Valgeirsdóttir 2 og Sólveig Lára Kristjánsdóttir 1.

Varin skot: Matea Lonac 14, Sif Hallgrímsdóttir 2.

Tölfræði leiksins

Línumaðurinn öflugi, Anna Þyrí Halldórsdóttir, gerir eitt sex marka sinna í leiknum í dag. Hún var markahæst í liði KA/Þórs.

Hildur Magnea Valgeirsdóttir í dauðafæri gegn Haukum 2 í dag. Hún gerði tvö mörk í leiknum.