Fara í efni
Þór

Sannfærandi sigur Þórsara á Snæfelli

Emma Karólína Snæbjarnardóttir stillir miðið fyrir 3ja stiga skot seint í leik kvöldsins, og fagnar með tilþrifum eftir að boltinn rataði rétt leið. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þór vann sannfærandi sigur á Snæfelli úr Stykkishólmi, 84:72, á Íslandsmóti kvenna í körfubolta á heimavelli í kvöld. Ljóst er að Þórsstelpurnar taka þátt í úrslitakeppni átta liða um Íslandsmeistaratitilinn en næsta stóra verkefni er viðureign þeirra við Grindavík í undanúrslitum bikarkeppninnar sem fram fer í Laugardalshöllinni á miðvikudag í næstu viku.

  • Skorið eftir leikhlutum: 19:20 – 18:21 – 37:41 – 23:13 – 24:18 – 84:72

Gestirnir voru skrefi á undan í fyrri hálfleiknum eins og sjá má á tölunum, náðu til dæmis 10 stiga forystu í fyrsta leikhluta, 20:10, en Þórsarar gerðu níu síðustu stigin. Allt annað var að sjá til Þórsara í seinni hálfleik og sigurinn var öruggur þegar upp var staðið

Emma Karólína Snæbjarnardóttir, sem enn er aðeins 15 ára, glímdi við meiðsli framan af vetri en tekur sífellt meiri þátt í leikjum. Gaman er að fylgjast með þessari stórefnilegu stelpu; hún var stigahæst í Þórsliðinu í kvld með 19 stig, tók 7 fráköst og gaf 3 stoðsendingar.

Maddy Sutton og Lore Devos gerðu báðar 16 stig fyrir Þór, Sutton tók 10 fráköst og gaf 5 stoðsendingar, Devos tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Eva Wium Elíasdóttir gerði 11 stig og var með 5 stoðsendingar.

  • Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.

Eftir 16 leiki var deildinni skipt í tvennt, efstu fimm liðin leika í A-hluta, en neðri fjögur í B-hluta. Þegar deildarkeppninni lýkur tekur við úrslitakeppni átta efstu liða, fimm úr A-hlutanum og þriggja efstu í B-hlutanum. Ljóst er að Valur og Þór enda í 6. og 7. sæti deildarinnar aðeins spurning hvort verður hvar.

Þessir leikir eru eftir í B-hlutanum:

  • Snæfell – Valur
  • Fjölnir – Þór
  • Fjölnir – Snæfell
  • Þór – Valur