Fara í efni
Þór

Hanna nýjan búning fyrir hvert Pollamót!

Halldór Einarsson - HENSON - og Birgir Össurarson með keppnistreyju ársins þegar forsprakki Óþokka kom í sína árlegu heimsókn til að sækja keppnistreyju fyrir Pollamót Þórs.

Ungmennafélagið Óþokki er sennilega ekki landsþekkt, enda ekki formlegt ungmennafélag, en það setur jafnan mikinn og skemmtilegan svip á árlegt Pollamót Samskipa í knattspyrnu sem Þórsarar halda fyrstu helgina í júlí. Mótið fer fram eftir rúma viku og þar verða Óþokkar fjölmennari en aðrir – alls um 80 keppendur í sex liðum.

Allt er klárt hjá ungmennafélaginu, meðal annars keppnisbúningur ársins en það er löngu orðin hefð að nýr búningur er hannaður fyrir hvert mót. Það hefur verið gert í 20 ár og HENSON alltaf framleitt.

Ævintýrið um Óþokka hófst á skrifstofu Samherja á Akureyri fyrir aldarfjórðungi. Birgir Össurarson lék knattspyrnu ásamt fáeinum samstarfsmönnum og fleirum og vildi stofna félagsskap í því skyni að hópurinn tæki sér fleira fyrir hendur.

Gleði og ánægja hafa alltaf ráðið ríkjum í hópnum en til að Óþokki yrði alvöru var strax hannað merki félagsins, um það sá kennarinn og myndlistarmaðurinn Hallgrímur Ingólfsson. Sem sagt, leitað er til fagmanna þegar á þarf að halda, eins og einnig má merkja af búningaframleiðslunni.

Glæsilegt safn! Keppnistreyjur sem Birgir og félagar í Óþokka hafa látið framleiða fyrir Pollamótið síðustu tvo áratugi!

Þokki og Óþokki

„Stelpurnar á skrifstofunni urðu fyrri til, sögðust hafa stofnað íþróttafélagið Þokka þannig að við strákarnir stofnuðum ungmennafélag og nefndum að sjálfsögðu Óþokka,“ segir Birgir við Akureyri.net.

Ungmennafélagið Óþokki hefur allar götur síðan verið afar öflugur félagsskapur, og mjög skemmtilegur, að sögn forsprakkans.

Haldið var upp 25 ára afmæli Óþokka á Pollamótinu í fyrra „og við gerðum það með stæl,“ segir Birgir. „Stóðum fyrir ýmiskonar uppákomum á mótinu og vorum í stjörnumerktum treyjum.“

Búningar landsliða eru stundum prýddir stjörnum, einni fyrir fyrir hvern heimsmeistaratitil, og félagslið gefa þannig til kynna fjölda Evrópumeistaratitla. „Við vorum með fjórar stjörnur – einni fyrir hvert land þar sem við höfum unnið mót,“ segir Birgir.

Óþokki fer nefnilega reglulega í keppnis- og skemmtiferðir til útlanda og hefur víða farið.

Ýmsir gestir hafa líka sótt Óþokka heim í gegnum árin. „Lið frá ýmsum þjóðlöndum hafa komið til að spila við okkur og í þeim hópum hafa verið bæði stór og lítil nöfn, meðal annars menn sem hafa verið atvinnumenn með stórum liðum í Evrópu,“ segir Birgir en fer ekki nánar út í þá sálma.

Birgir Össurarson með boltann á Pollamótinu árið 2017 þegar búningu Óþokka var hannaður til heiðurs íslenska kvennalandsliðsins sem tók þá þátt í Evrópumótinu í Hollandi. Mynd: Skapti Hallgrímsson 

„Í okkar hóp veljum við ekki bestu knattspyrnumenn í heimi. Í hópnum eru ekki margir sem spilað hafa með meistaraflokki í gegnum tíðina en við unnum samt tvo af fjórum karlaflokkum á Pollamótinu í fyrra. Það sýnir að vinátta, samheldni og húmor getur komið mönnum langt.“

Fyrst voru það karlar á skrifstofu Samherja sem töldust Óþokkar, síðan bættust nokkrir af skipum félagsins við og síðan hefur hópurinn stækkað mjög, makar starfsmanna bæst við, vinir þeirra og svo framvegis. „Eftirspurnin um að fá að komast í félagsskapinn eykst stöðugt og alls konar tækni er notuð. Menn senda mér ýmsar upplýsingar og halda jafnvel að haldin séu inntökupróf ...“

Óþokkar verða fleiri en aðrir á Pollamótinu nú, eins og áður segir. Félagið teflir fram sex liðum, fimm karlaliðum og einu í kvennaflokki. „Þar er dóttir mín með lið í yngsta flokknum. Hér eru því að eiga sér stað kynslóðaskipti, feðgar eru í hópnum og mæðgin.“

Búningablætið

Óþokki tók þátt í körfuboltamóti í fyrra – og þá framleiddi HENSON vitaskuld sérstaka búninga, félagið hefur einnig keppt í golfi og softball; mjúkbolta, sem svipar til hafnabolta.

„Þetta búningablæti okkar er löngu orðið að hefð. Við bjuggum til búning fyrsta árið sem við tókum þátt í Pollamóti, aftur árið eftir og síðan er það orðinn einn stærsti þátturinn í undirbúningi okkar fyrir mótið.“

Birgir er nokkurs konar allsráðandi einvaldur, enda stofnandi félagsins, og sá um hönnun búningana lengi vel.

Markverðir ungmennafélagsins á Pollamótinu í fyrra, Sigurvin Jónsson – Fíllinn – og Atli Þór Ragnarsson, til hægri. Markmennirnir njóta þeirrar sérstöðu að fá að hanna búninga sína sjálfir!

„Eftir því sem maður eldist verður maður linari og aðrir eiga orðið auðveldara með að koma skoðunum sínum á framfæri en áður. Ég sendi strákunum meira að segja þau skilaboð um að ég væri tilbúinn að taka við hugmyndum frá þeim! Þeim brá reyndar nokkuð því þeir eru ekki vanir því að þurfa að hugsa í þessum félagsskap, bara að framkvæma.“

Reynsla hans er líka sú, segir Birgir, að betra sé að tala við eiginkonurnar. Þá sé auðveldara að taka ákvarðanir ...

Birgir, sem er sölu- og markaðsstjóri Ice Fresh Seafood, sölufélags Samherja, bjó á Akureyri í 28 ár en flutti á höfuðborgarsvæðið fyrir fjórum árum. „Allt okkar fólk er þar, börn, barnabörn og foreldrar, en ég kem reglulega norður til þess að vinna – og æfa með Óþokka,“ segir hann. Félagsskapurinn æfir fótbolta tvö hádegi í viku í Boganum.

„Segja má að þegar ég flutti hafi drengirnir losnað undan minni reglulegu stjórn, en ég skal viðurkenna að ég fjarstýri þeim enn dálítið!“

Úkraína, Wrexham og Dóttir

Búningar Óþokka hafa verið með ýmsu móti í gegnum árin, eins og sjá má á myndinni að ofan. „Í fyrra hvíslaði því einhver að mér hvort ekki væri kominn tími til að vera í ljósum treyjum og þá gerðum búning í anda Wrexham.“

Félagið er frá Wales en spilar í ensku deildakeppninni og hefur verið áberandi í umræðunni síðustu misseri eftir að heimsfrægar Hollywood stjörnur, Ryan Reynolds and Rob McElhenney, keyptu félagið. Þá var að sjálfsögðu tilvalið að stjörnum prýtt lið Óþokka færi þessa leið.

Árið áður var treyjan hönnuð með landsliðsbúning Úkraínu í huga, til að sýna þjóðinni samstöðu vegna ástandsins þar í landi. Óþokki lék í rauðu búningunum sem Birgir klæðist á myndinni, sem fylgir þessar grein, árið 2017, til að heiðra íslenska kvennalandsliðið sem tók þá þátt í Evrópumótinu í Hollandi. Nöfn leikmanna eru jafnan aftan á treyjum Óþokka eins og annarra stórliða, og árið 2017 voru allir merktir DÓTTIR.

Fjölmennur og glæsilegur hópur Óþokka á Pollamóti Þórs og Samskipa í fyrrasumar

Búningar markvarða knattspyrnuliða eru ætíð í öðrum lit en annarra leikmanna og markmenn Óþokka njóta þeirra forréttinda að fá að hanna sína búninga sjálfur. Sigurvin Jónsson – Fíllinn, eins og hann kallar sig – markvörður Óþokka í gegnum tíðina er æskufélagi Birgis og fékk snemma frjálsar hendur í búningamálum.

„Í fyrra voru markmennirnir í búningum sem litu út eins og jakkaföt, einu sinni voru þeir í Superman búningum og á einu mótinu var Fíllinn með skotskífu á bumbunni!“

130 treyjur

Óþokkar eru fjölmennastir allra á Pollamótinu í ár sem fyrr segir. „Að þessu sinni gerðum við stærstu búningapöntunina hingað til, tókum 130 treyjur; leikmenn eru um 80 en við erum farnir að gera barnatreyjur líka og maður sér þær orðið víða í íþróttaskólum og á æfingum út um land!“

Gert er ráð fyrir að um nærri 800 manns taki þátt í mótinu í ár „þannig að við erum um það bil 10% þátttakenda. Þórsarar geta þakkað okkur fyrir góða afkomu af mótinu!“

Eins og allir ættu að skynja af lestra viðtalsins er gleðin aldrei langt undan. „Ég er ótrúlega þakklátur fyrir að við getum sinnt okkar langmesta áhugamáli saman langt fram eftir aldri. Félagsskapurinn hafi verið frábær alla tíð, skemmtilegur andi í hópnum og samheldnin mikil. Við höldum til dæmis alltaf veislu á laugardagskvöldi Pollamótshelgina og þar eru makar að sjálfsögðu með. Þar þakka ég eiginkonunum alltaf fyrir afnotun af drengjunum þessa helgi og skila þeim svo einhvern tíma aðfararnótt sunnudagsins!“