Fara í efni
Þór

Nágrannaslagur Þórs og Tindastóls í kvöld

Úr leik Þórs og Tindastóls snemma árs 2023. Maddie Sutton í baráttu við Evu Rún Dagsdóttur. Mynd: Páll Jóhannesson - thorsport.is.

Kvennalið Þórs og Tindastóls mætast í efstu deild Íslandsmótsins í körfuknattleik, Bónusdeildinni, í kvöld kl. 19.15. Þetta verður fyrsta viðureign kvennaliða þessara félaga í efstu deild í körfuknattleik enda eru Skagfirðingar nú í fyrsta skipti í efstu deild með sitt lið. Það má því væntanlega búast við hörkuleik, fullum af tilfinningum og vonandi með fjölda stuðningsmanna beggja liða í stúkunni. 

Þórsliðið hefur unnið einn leik af fyrstu fjórum, en verið grátlega nálægt sigri í öllum tapleikjunum, á útivelli gegn Hamri/Þór, Val og Keflavík. Eini sigurinn kom gegn Grindavík í Íþróttahöllinni á Akureyri. Tindastóll hefur unnið tvo leiki og tapað tveimur. Tindastóll tapaði fyrir Aþenu á útivelli í fyrstu umferðinni, vann Stjörnuna heima og Njarðvík úti, en tapaði svo heima fyrir Val í síðustu umferð.

Mikill samgangur

Leikmenn hafa farið á milli þessara félaga í gegnum tíðina og má til dæmis nefna að einn máttarstólpa Þórsliðsins, Maddie Sutton, hóf Íslandsferil sinn á Sauðárkróki áður en hún skipti yfir í Þór og er nú á sínu þriðja tímabili með liðinu. Nokkrar fóru frá Þór í Tindastól og spiluðu þar þegar Þór tefldi ekki fram liði tímabilin 2020-21 og 2021-22, þeirra á meðal annar máttarstólpi Þórsliðsins, Eva Wium Elíasdóttir.

Karen Lind Helgadóttir skipti einnig yfir í Tindastól um tíma, en hún er hætt. Þá hafa nokkrar úr Skagafirðinum fært sig yfir til Akureyrar og spilað með Þór, til dæmis Marín Lind Ágústsdóttir, Kristín María Snorradóttir, Rebekka Hólm Halldórsdóttir og Katrín Eva Óladóttir. Katrín Eva er sú eina þessara sem hér eru taldar upp sem spilar með Þórsliðinu í dag, en Kristín María skipti aftur í Tindastól fyrir yfirstandandi tímabil. 

Þá má geta þess að Hlynur Freyr Einarsson er aðstoðarþjálfari kvennaliðs Tindastóls var áður leikmaður Þórs í nokkur ár og aðstoðarþjálfari Daníels Andra Halldórssonar hjá Þór í fyrravetur. 

Ein farin, önnur komin

Körfuknattleiksdeild Þórs hefur tilkynnt nýjan leikmann, eins og Akureyri.net sagði frá í umfjöllun eftir leikinn í Keflavík. Natalia Lalic er gengin í raðir Þórs, en hún er ástralskur bakvörður og hefur meðal annars spilað í heimalandinu og í bandaríska háskólaboltanum.

Natalia Lalic í leik með bandaríska háskólaliðinu Indiana State Sycamores.

Þórsliðið hefur aftur á móti misst Theu Ólafíu Lucic Jónsdóttur eftir stutta veru fyrir norðan, en hún hefur skipt yfir í ÍR sem vill svo skemmtilega til að verða mótherjar Þórsliðsins í bikarkeppninni í desember.