Fara í efni
Þór

Mark beint úr horni og Blikar í bikarúrslit

Sigurmarkið í kvöld; Shelby Money markvörður Þórs/KA reyndi að slá knöttinn eftir hornspyrnu Írenu Héðins­dótt­ur Gonza­lez en i netið fór hann. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA tapaði 2:1 fyrir Breiðabliki eftir framlengingu í kvöld þegar liðin mættust í undanúrslitaleik bikarkeppni kvenna í knattspyrnu á Þórsvellinum (VÍS-vellinum). Blikar fara því í úrslitaleikinn en Stelpurnar okkar sitja eftir með sárt ennið eftir hörkuleik við erfiðar aðstæður.

Kalt var í veðri, töluverður vindur úr norðri og rigning hluta leiksins. Ekki var skorað í hefðbundnum leiktíma og því blásið til framlengingar i 2 x 15 mínútur.

Þegar um 10 mínútur voru liðnar af fyrri hálfleik tóku Blikar forystu. Varnarmenn Þórs/KA gleymdu sér, Birta Georgsdóttir komst inn í vítateiginn vinstra megin og sendi fyrir markið þar sem Hrafnhildur var óvölduð á markteignum.

Jöfnunarmarkið! Fyrirliðinn Sandra María Jessen fagnar hér ásamt Margréti Árnadóttur og Lara Ivanusa (15). Blikinn lengst til hægri er fyrrverandi liðsfélagi Margrétar og Söndru, Akureyringurinn Heiða Ragney Viðarsdóttir. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Markadrottningin Sandra María Jessen jafnaði rétt fyrir lok fyrri hálfleiks framlengingar. Hulda Björg Hannesdóttir sendi knöttinn inn í vítateig, yfir varnarmenn Blika, Sandra tók hann niður og skoraði af öryggi undir Telmu Ívarsdóttur markvörð. 

Úrslitin réðust um miðjan seinni hálfleik framlengingarinnar. Sigurmarkið verður að skrifast á Shelby Money, markvörð Þórs/KA; Írena Héðins­dótt­ir Gonza­lez nýtti sér norðanáttina þegar hún tók hornspyrnu, sendi hátt fyrir markið og Money náði ekki boltanum; hugðist slá hann en boltinn sveif yfir hana og í netið þótt Shelby næði aðeins að koma við hann. Sorglegt að úrslit ráðist í slíkum leik á þennan hátt.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna