Fara í efni
Þór

KA/Þór hefur leik í Grill 66 deildinni í dag

Matea Lonac mun verja mark KA/Þórs áfram. Myndin er úr leik KA/Þórs og Vals. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Handboltavertíðin er hafin og keppni í næstefstu deild kvenna, Grill 66 deildinni, fór af stað núna í vikunni. KA/Þór hefur keppni í dag með heimaleik gegn Haukum 2. Leikurinn fer fram í KA-heimilinu og hefst kl. 15.

KA/Þór spilar nú í næstefstu deild Íslandsmótsins eftir að hafa endað í 8. og neðsta sæti Olísdeildarinnar í fyrra og fallið ásamt Aftureldingu. Gangi spádómar þjálfara og fyrirliða í Grill 66 deildinni eftir munu bæði þessi lið staldra stutt við því KA/Þór er spáð efsta sætinu og Aftureldingu 2. sæti. Tíu lið eru í deildinni, en aðeins sjö þeirra er heimilt að fara upp um deild því Fram, Haukar og Valur tefla fram B-liði í Grill 66 deildinni og geta því ekki farið upp í sömu deild og aðallið sömu félaga.


Jónatan Magnússon og Stefán Guðnason, formaður kvennaráðs KA/Þórs. Mynd: ka.is.

Þjálfaraskipti og norsk skytta

Jónatan Magnússon tók við liðinu á ný eftir síðasta tímabil, en hann stýrði KA/Þór 2016-2019 og kom liðinu þá upp í efstu deild. Samningur Jónatans er til þriggja ára. Leikmannahópurinn hefur ekki tekið miklum breytingum á milli ára, en þó er Rut Arnfjörð Jónsdóttir nú farin suður eftir fjögur ár með KA/Þór og Nathalia Soares Baliana fór til Portúgal.

Félagið hefur fengið til liðs við sig 27 ára norska skyttu, Susanne Pettersen, en að öðru leyti má reikna með að áfram fái kornungar og efnilegar heimakonur mikla ábyrgð og dýrmæta reynslu í Grill 66 deildinni. Það kom meðal annars fram þegar félagið tilkynnti um komu Susanne: „Það verður afar spennandi að fá þessa öflugu og reynslumiklu skyttu í lið okkar en á komandi vetri er lagt upp með að byggja upp öflugan kjarna af ungum og uppöldum leikmönnum og er það afar sterkt að fá inn sterkan utanaðkomandi leikmann til að miðla af sinni reynslu.“

Reglulega undanfarna mánuði hafa komið fréttir af leikmönnum sem hafa skrifað undir nýja og framlengt samninga sína við félagið: Anna Þyrí Halldórsdóttir, Elsa Björg Guðmundsdóttir, Kristín Aðalheiður Jóhannesdóttir, Lydía Gunnþórsdóttir, Sif Hallgrímsdóttir og Telma Lísa Elmarsdóttir hafa allar framlengt samninga sína í vor og sumar.


Norska skyttan Susanne Pettersen er gengin til liðs við KA/Þór.

Sunnudagur 15. september kl. 15:00 í KA-heimilinu
KA/ÞÓR - HAUKAR 2

  • Stöðutafla og leikjadagskrá – (hsi.is)
  • Niðurstaðan í fyrra: 8. sæti, sjö stig í 21 leik og fall úr efstu deild. 
  • Spá þjálfara og fyrirliða: 1. sæti
  • Liðin í deildinni: Afturelding, Berserkir, FH, Fjölnir, Fram 2, Haukar 2, HK, KA/Þór, Valur 2, Víkingur.

Komnar

  • Susanne Denise Pettersen frá Pors í Noregi.

Farnar

  • Rut Arnfjörð Jónsdóttir til Hauka.
  • Nathalia Soares Baliana til Portúgal.

Upplýsingar um félagaskipti eru fengnar af handboltavef Íslands, handbolti.is.


Rut Arnfjörð Jónsdóttir í leik með KA/Þór 2021 þegar liðið varð Íslandsmeistari. Hún átti stóran þátt í velgengni liðsins á þessum tíma, en hún er farin í Hauka.. 

Fyrstu leikir

  • Haukar 2 (h)
  • Afturelding (ú)
  • Valur 2 (h)
  • HK (h)
  • Berserkir (ú)