Fara í efni
Þór

Fámennt lið SR-inga stóð í SA Víkinguum

Heiðar Gauti Jóhannsson (6) sem hér fagnar sigri í leik SA og SR í úrslitarimmunni í vor skoraði tvö mörk í sigri SA í dag. Hér er hann ásamt Róberti Steingrímssyni markverði og Unnari Hafberg Rúnarssyni, en Unnar var ekki með SA í leik dagsins þar sem hann tók út leikbann. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.

SA Víkingar unnu SR í Toppdeild karla í íshokkí í dag, 5-4, í spennandi leik í Skautahöllinni á Akureyri í dag. SR-ingar mættu með aðeins tíu útileikmenn í leikinn, en gáfu þó ekkert eftir og komust tvisvar yfir í leiknum. SA Víkingar reyndust þó sterkari í lokin og héldu út þrátt fyrir ákafar tilraunir gestanna á lokamínútunum. 

SR-ingar skoruðu fyrsta mark leiksins eftir innan við tvær mínútur. Sölvi Atlason lék þá laglega í gegnum vörn SA og skoraði. Marek Vybostok jafnaði í 1-1 þegar um fimm mínútur voru eftir af fyrstu lotunni, eftir að Hank Nagel brunaði upp vinstri kantinn og renndi pökknum út á Marek sem var aleinn fyrir framan markið og skoraði af öryggi. SR-ingar svöruðu hins vegar um hæl, tóku aftur forystuna tæpum tveimur mínútum síðar þegar Richard Verdins lét vaða af löngu færi, rétt innan við bláu línuna, en Heiðar Gauti Jóhannson jafnaði í 2-2 á lokamínútu fyrstu lotunnar þegar hann var fyrstur í frákastið eftir að skot frá Ormi Jónssyni var varið.

Heiðar Gauti skoraði svo sitt annað mark og kom SA í forystu í annarri lotu, en Sölvi jafnaði fyrir SR með öðru marki sínu. Robbe Delport náði aftur forystunni fyrir SA þegar aðeins 40 sekúndur voru liðnar af þriðju lotunni og Hafþór Andri Sigrúnarson kom SA í 5-3 þegar rúmar 12 mínútur voru til leiksloka.

Þá hefði mátt búast við því að gestirnir færu að þreytast vegna fámennis og gæfu eftir, en þeir voru ekkert á þeim buxunum í dag.

Níels Hafsteinsson minnkaði muninn í 5-4 um miðja þriðju lotuna og hleypti þannig spennu í lokamínuturnar. SR-ingum tókst þó ekki að nýta sér liðsmuninn þegar heimamenn fengu refsingar, þrisvar voru þeir fleiri í tvær mínútur. SR-ingar tóku markvörðinn út af þegar rúmar tvær mínútur voru eftir og fjölguðu í sókninni, en tókst ekki að nýta þann liðsmun, jafnvel þótt SA væri með fjóra útileikmenn síðustu hálfu mínútuna. Það hleypti þó spennu í leikinn, en dugði gestunum ekki. Leikurinn endaði svo með dómarakasti í varnarsvæði SA þegar þrjár sekúndur voru eftir, en tíminn hljóp frá gestunum og sigur SA Víkinga í höfn.

  • SA - SR 5-4  (2-2, 1-1, 2-1)

Helstu tölur úr leiknum:

SA

Mörk/stoðsendingar: Heiðar Gauti Jóhannsson 2/1, Hafþór Andri Sigrúnarson 1/1, Marek Vybostok 1/0, Robbe Delport 2/0, Ormur Jónsson 0/2, Andri Már Mikaelsson 0/1.
Varin skot: Róbert Steingrímsson 23 af 27 (85,2%).
Refsimínútur: 8.

SR

Mörk/stoðsendingar: Sölvi Atlason 2/0, Níels Hafsteinsson 1/1, Rihards Verdins 1/0, Gunnlaugur Þorsteinsson 0/2, Sæmundur Egill Þorsteinsson 0/2, Þorsteinn Óli Garðarsson 0/1.
Varin skot: Jóhann Björgvin Ragnarsson 38 af 43 (88,4%).
Refsimínútur: 2.

Það hefur stundum áður verið nefnt hér í umfjöllun að íshokkíheimurinn sé ekki stór og dæmi um það þegar dómari og leikmaður eru bræður. Í leik dagsins, og ekki í fyrsta skipti í vetur, voru feðgar í dómarateyminu, þeir Guðni Helgason og Tómas Guðnason, sem dæmu leikinn ásamt Katrínu Ryan. Ekki nóg með það heldur er sonur Guðna, Stefán, í liði SA Víkinga.

SA er í efsta sæti A-hluta Toppdeildarinnar með 12 stig úr fimm leikjum, SR er með sex stig úr fjórum leikjum og Fjölnir með þrjú stig úr fimm leikjum.

Leikskýrslan.

Staðan í deildinni.

Að venju var leiknum streymt á YouTube-rás Íshokkísambandsins og hægt að horfa á upptöku af honum þar.

Í lok upptökunnar er hægt að fara beint inn á endursýningu markanna í leiknum: