Fjórir heimaleikir á íþróttadagskránni
Akureyringar hafa úr nógu að velja á íþróttasviðinu í dag, fjögur Akureyrarlið með heimaleiki, en að vísu skarast einhverjir þeirra þannig að erfitt yrði að mæta á alla. Handbolti kl. 15, körfubolti kl. 16 og íshokkí kl. 16:45 og 19:30.
KA-HEIMILIÐ KL. 15
Lið KA/Þórs fékk skell í síðustu umferð á móti ÍBV í Eyjum og situr í 4. sæti deildarinnar með níu stig eftir átta umferðir. KA/Þór tekur á móti Selfyssingum í 9. umferðinni í dag, en Selfyssingar eru í 7. sæti deildarinnar með tvö stig. Búast má við að stelpurnar mæti af krafti til leiks í dag eftir skellinn í síðasta leik í Eyjum.
- Olísdeild kvenna í handknattleik
KA-heimilið kl. 15
KA/Þór - Selfoss
ÍÞRÓTTAHÖLLIN KL. 16
Kvennalið Þórs í körfuknattleik hefur unnið alla leiki sína í 1. deildinni til þessa og er eðlilega í toppbaráttunni. Aþena, Selfoss og Snæfell eru helstu keppinautarnir eins og stendur. Tvö félög í Bónusdeildinni eru með B-lið sín í 1. deildinni og á laugardag tekur Þórsliðið á móti B-liði Stjörnunnar sem er í 7. sæti deildarinnar með einn sigur í þremur leikjum.
- 1. deild kvenna í körfuknattleik
Íþróttahöllin á Akureyri kl. 16
Þór - Stjarnan b
SKAUTAHÖLLIN KL. 16:45
Það má búast við hörkuslag í Toppdeild karla í íshokkí í dag þegar lið Skautafélags Reykjavíkur kemur norður, en leikurinn verður þriðji leikur SA Víkinga á einni viku. SA vann leik þessara liða á ofurhelginni í Egilshöllinni fyrir stuttu, en SR-ingar hafa síðan þá fengið liðsstyrk með tveimur leikmönnum úr SFH, þeim Pétri Maack og Birni Róbert Sigurðarsyni.
Þessi lið hafa barist um Íslandsmeistaratitilinn undanfarin ár og von á góðri skemmtun.
- Toppdeild karla í íshokkí
Skautahöllin á Akureyri kl. 16:45
SA - SR
SKAUTAHÖLLIN KL. 19:30
Seinni íshokkíleikur dagsins er jafn áhugaverður og sá fyrri því kvennalið SA tekur á móti liði Skautafélags Reykjavíkur. SR-ingar hafa styrkst mjög frá síðasta tímabili og eru í 2. sæti deildarinnar með tíu stig. SA hefur unnið alla sína leiki, þar af einn í framlengingu gegn SR. Það verður því örugglega hart barist og von á góðri skemmtun þegar þessi lið mætast á laugardag.
- Toppdeild kvenna í íshokkí
Skautahöllin á Akureyri kl. 19:30
SA - SR