Fara í efni
Þór

Evrópuævintýrið bæði upplifun og reynsla

Jóhann Mikael Ingólfsson, markvörður 2. flokks KA í knattspyrnu í Menntaskólanum á Akureyri þar sem hann er við nám. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Á nýliðnu hausti var dagskráin hjá strákunum í 2. flokki KA í knattspyrnu talsvert frábrugðin því sem vanalega hefur tíðkast hjá jafnöldrum þeirra í boltanum. Yfirleitt lýkur keppnistímabilinu að hausti og þá tekur við smávegis frí áður en undirbúningur næsta keppnistímabils hefst. En KA-strákarnir komust ekki í frí fyrr en í nóvember – þeir voru nefnilega að spila í Evrópukeppni! Jóhann Mikael Ingólfsson, markvörður KA, sem átti stórleik í fjórða og síðasta Evrópuleiknum segir þátttöku í keppninni skemmtilega og mjög góða reynslu.

Með Íslandsmeistaratitli sínum í 2. flokki í fyrra öðlaðist lið KA keppnisrétt í Evrópudeild ungmennaliða 19 ára og yngri (UEFA Youth League). Leikið er með útsláttarfyrirkomulagi og í fyrstu umferð öttu strákarnir kappi við lið FS Jelgava, frá samnefndri borg í Lettlandi. Fyrri leikurinn var á heimavelli Lettanna og þar náði KA-liðið í 2:2 jafntefli af miklu harðfylgi, eftir að hafa verið 2:0 undir í leikhléi. Seinni leikurinn fór fram á Greifavellinum og þar tryggði KA sér sæti í 2. umferð keppninnar, með 1:0 sigri á lettneska liðinu.

Jóhann Mikael Ingólfsson markmaður KA í leiknum gegn PAOK í Grikklandi.

Íslenskt lið í fyrsta sinn í 2. umferð Evrópudeildarinnar

Eftir því sem næst verður komist er þetta í fyrsta sinn sem íslenskt U19 lið kemst áfram í 2. umferð Evrópudeildarinnar. Andstæðingur KA í þessari umferð var geysisterkt lið PAOK frá Grikklandi og var fyrri leikurinn á heimavelli KA síðla í október. Veðurguðirnir settu talsvert strik í reikninginn og vegna linnulausrar snjókomu tókst ekki að gera Greifavöllinn leikfæran. Leiknum var því frestað og spilað var inni í Boganum daginn eftir. Grikkirnir reyndust talsvert sterkara liðið og fóru með 2:0 sigur í farangrinum heim til Grikklands.

Seinni leikurinn í Grikklandi var leikinn snemma í nóvember og þrátt fyrir stórsókn Grikkjanna allan leikinn var það ekki fyrr en í blálokin að þeir náðu að skora tvívegis og vinna 2:0. Samanlagt 4:0, PAOK í vil og KA-strákarnir úr leik. Árangurinn hjá þeim samt sem áður glæsilegur og að spila fjóra Evrópuleiki gegn sterkum liðum er eitthvað sem vegur þungt inn í reynslubankann.

 

Jóhann markvörður hafði nóg að gera gegn PAOK

Mikið mæddi á Jóhanni Mikael Ingólfssyni, markmanni KA, í þessum leikjum og ekki hvað síst í útileiknum í Grikklandi þar sem Grikkirnir sóttu stíft. Í samtali við akureyri.net tók hann undir að hafa haft í nægu að snúast í þeim leik. „Jú, það var nefnilega mjög mikið að gera, þeir voru að sækja allan tímann. En þetta var skemmtilegt og mjög góð reynsla fyrir okkur alla,“ sagði Jóhann Mikael. Blaðamaður telur næsta víst að kappleikur gegn sterku erlendu liði á útivelli sé talsvert frábrugðið „hefðbundinni“ viðureign á Íslandsmóti t.d. gegn einhverju liði á suðvesturhorninu – og Jóhann þrætir ekki fyrir það! En í hverju liggur munurinn – að hvaða leyti er gríska liðið öðruvísi en þessi íslensku? „Þeir eru mjög vel drillaðir og hraðir, spila boltanum hraðar á milli sín. Ég held að það séu níu úr þessu liði í gríska U19 landsliðinu,“ segir Jóhann og samkvæmt því sem blaðamaður hefur heyrt er næstum tugur starfsmanna hjá PAOK sem sinnir eingöngu ungmennaliði félagsins. Þannig að það er ólíku saman að jafna og frammistaða KA-strákanna gegn þessu liði er þeim til mikils sóma.

Mjög góð úrslit hjá okkur

Og að fá tækifæri til að spila Evrópuleiki er án efa talsverð upplifun. „Þetta var mjög skemmtileg reynsla, gaman að fá að prófa þetta og getur hjálpað okkur öllum til framtíðar. Þetta voru mjög góð úrslit hjá okkur gegn þeim og vonandi fær maður að spila fleiri svona leiki,“ segir Jóhann Mikael.

Þrátt fyrir að vera einungis 18 ára gamall er Jóhann Mikael ekki alveg ókunnugur Evrópuleikjum, því hann var í leikmannahópi meistaraflokks KA í Evrópuleikjunum gegn Silkeborg síðastliðið sumar og hefur auk þess nokkrum sinnum verið í leikmannahópi liðsins í Bestu deildinni. Hann er þegar kominn með mínútur í deildinni því hann kom inn á í leik gegn Vestra í fyrra og aftur gegn ÍBV á þessu ári. Þessi efnilegi markvörður er uppalinn KA-maður og hefur verið sigursæll með yngri flokkum félagsins, ásamt því að vera fastamaður í yngri landsliðshópum.

Undirbúningur næsta keppnistímabils er þegar hafinn og KA-strákarnir hafa ekki slegið slöku við. Nýlega bar lið KA2 sigurorð af Lengjumeistaraliði Þórs í Kjarnafæðimótinu – og uppistaðan í KA2 liðinu er einmitt strákarnir úr 2. flokki KA.