Blak: Gull og silfur á bikarmóti yngri flokka
KA náði frábærum árangri á bikarmóti yngri flokka í blaki sem fór fram í Mosfellsbæ um helgina. Leikið var í flokkum undir 20 ára og undir 14 ára. Stelpurnar í U20 og U14 gerðu sér lítið fyrir og hömpuðu bikarmeistaratitlinum. Strákarnir í U20 og U14 stóðu sig einnig með prýði og unnu bæði lið til silfurverðlauna.
Stúlkurnar í U14 liði KA unnu allar sínar viðureignir nokkuð örugglega og stóðu uppi sem bikarmeistarar. U20 liðið vann sömuleiðis alla sína leiki, þar á meðal öruggan 3:0 sigur gegn Þrótti frá Neskaupstað í bikarúrslitaleiknum.
U14 lið strákanna vann til silfurverðlauna en strákarnir biðu einungis lægri hlut í viðureignum sínum gegn sameiginlegu liði Þróttar frá Neskaupstað og Aftureldingar, sem fékk gullið.
Og U20 lið strákanna varð einnig að sætta sig við silfrið eftir nauma tapleiki gegn Vestra. Fyrst í oddahrinu í hörkuviðureign í undankeppninni og síðan í úrslitaleiknum um bikarmeistaratitilinn en aðrar viðureignir unnust.