Fara í efni
Þór

Eitt stig – Þróttarar jöfnuðu í uppbótartíma

Þórsarinn Kristófer Kristjánsson með boltann í Laugardalnum í kvöld. Kári Kristjánsson sækir að honum, Ísak Daði Ívarsson er til vinstri. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar gerðu 1:1 jafntefli við Þróttara á heimavelli þeirra síðarnefndu í Laugardalnum í Reykjavík í kvöld. Leikurinn var liður i fyrstu umferð Lengjudeildarinnar í knattspyrnu, næst efstu deildar Íslandsmótsins.

Leikmenn Þórs gengu svekktir af velli, ekki síst vegna þess að Þróttarar jöfnuðu þegar skammt var til leiksloka en það verður að segjast eins og er að markið kom ekki mjög á óvart. Þótt Þróttarar hafi í sjálfu sér ekki ógnað marki Þórs verulega voru þeir mikið með boltann í seinni hálfleik. Því var hins vegar öfugt farið í þeim fyrri, þá stjórnuðu Þórsarar gangi mála.

Rafael Victor gerir fyrsta mark Þórs í Lengjudeildinni í sumar. Hann tók vítaspyrnu og þrumaði boltanum neðst í markhornið, óverjandi fyrir markvörð Þróttar þótt hann henti sér í rétt horn. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Fyrri hálfleikurinn hjá Þór lofaði góðu. Þórsarar héldu boltanum vel, voru mjög öruggir í öllum aðgerðum og gerðu eina mark hálfleiksins.

Það var Rafael Victor sem skoraði úr víti af miklu öryggi þegar hálftími var liðinn. Kristófer Kristjánsson komst upp hægri vænginn, lék upp að endamörkum og renndi boltanum fyrir markið en hann fór í hönd Þróttara sem reyndi að komast fyrir sendinguna og Þórður Þorsteinn Þórðarson dæmdi umsvifalaust vítaspyrnu.

Markaskorarinn fékk prýðilegt færi til að auka forystuna augnabliki áður en fyrri hálfleikurinn var flautaður af. Birkir Heimisson átti frábæra sendingu fyrir markið en Victor skallaði framhjá.

Fannar Daði Malmquist Gíslason var heppinn að slasast ekki þegar Birkir Björnsson tæklaði hann aftan frá í seinni hálfleiknum – og Þróttarinn líklega sleppinn að sleppa með gult spjald. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Eftir góðan fyrri hálfleik gáfu Þórsarar töluvert eftir í þeim seinni gegn vel spilandi Þróttarliði. Heimamenn héldu boltanum betur, pressuðu á Þórsara sem hörfuðu aftar á völlinn og beittu skyndisóknum. Þróttarar ógnuðu Þórsmarkinu ekki að neinu ráði en hættan er alltaf fyrir hendi þegar forystan er aðeins eitt mark og svo fór að Þróttur jafnaði þegar tvær mínútur voru liðnar af uppbótartíma.

Það var Jörgen Pettersen sem kom boltanum yfir marklínuna af stuttu færi eftir fyrirgjöf Christofer Rolin sem gerði vel eftir að tækifærið virtist hafa runnið honum úr greipum.

Uppbótartíminn reyndist tæpar níu mínútur, á þeim tíma lenti boltinn einu sinni ofan á þverslá Þórsmarksins eftir fyrirgjöf og fáeinum sekúndum áður en flautað var til leiksloka fengu Þórsarar dauðafæri; Birkir Heimisson tók aukaspyrnu langt úti á velli, Ragnar Óli Ragnarsson stökk hæsta allra og skallaði boltann niður á markteiginn þar sem Hermann Helgi Rúnarsson lét vaða á markið en Þórhallur Ísak markvörður heimamanna varði glæsilega.

Eitt stig var því uppskera kvöldsins og úrslitin nokkuð sanngjörn. Búist er við miklu af Þórsliðinu og engin ástæða til að efast um þá spádóma, mikið býr augljóslega í liðinu og satt að segja verður mjög spennandi að fylgjast með því í sumar.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Dauðafæri á síðustu sekúndunum. Hermann Helgi Rúnarsson þrumar að marki af stuttu færi en Þórhallur Ísak Guðmundsson varði glæsilega og tryggði Þrótturum þar með eitt stig. Mynd: Skapti Hallgrímsson