Fara í efni
Skógræktarfélag Eyfirðinga

Andlitsgrímur aldanna og náttúrustef

T.v. Andlitsgríma eftir James Merry. T.h. Verk eftir Ými Grönvold. Myndir: aðsendar

Þrjár sýningar verða opnaðar í Listasafninu á Akureyri á morgun, laugardaginn 30. ágúst kl. 15 – á Akureyrarvöku: James Merry – Nodens, Sulis & Taranis, Ýmir Grönvold – Milli fjalls og fjöru og Valin verk fyrir sköpun og fræðslu – Margskonar II. Á opnun verður boðið upp á listamannaspjall með Ými Grönvold og leiðsögn með James Merry. Dagskrá dagsins lýkur með tónleikum Bjarna Bragasonar og Helgu Daggar Jónsdóttur kl. 18 í sal 11, þar sem þau flytja íslenskar dægurlagaperlur. Í tilefni Akureyrarvöku verður Listasafnið opið til kl. 22. Enginn aðgangseyrir.

Í kvöld, föstudagskvöld, kl. 20.30 verður ljósverkið Brot eftir tékknesku listakonuna Kateřina Blahutová frumsýnt á svölum Listasafnsins. Hægt verður að berja verkið augum til kl. 02 og svo aftur á laugardagskvöldinu kl. 20.30-02.

Tíður samstarfsmaður Bjarkar Guðmundsdóttur

James Merry er breskur myndlistarmaður sem hefur búið og starfað á Íslandi í áratug. Hann er þekktastur fyrir útsaumaðar grímur og sem tíður samstarfsmaður Bjarkar Guðmundsdóttur í sjónrænni framsetningu hennar. Hann hefur unnið með stofnunum og listamönnum eins og V&A safninu í London, Gucci, Royal School of Needlework, Tim Walker, Tilda Swinton og Iris van Herpen.

Á þessari sýningu má sjá þrjár nýjar andlitsgrímur og er hver þeirra innblásin af ákveðnum rómversk-keltneskum fornleifafundi í Bretlandi. Verkin bjóða upp á samtímatúlkun á skarti valdsmanna frá járnöld og gefa innsýn í hversu heillaður Merry er af þessu sögutímabili sem og því svæði sem hann ólst upp á, í suðvesturhluta Englands. Til sýnis verða upprunaleg verk auk mynda og skrásetningar á sköpunarferlinu.

 

James Merry

Rannsakar rýmið á milli hins fasta og breytilega

Verk Ýmis Grönvold eru innblásin af náttúrunni s.s. fjöllum, fossum, hafi, dýralífi og plöntum. Oft eru þessi viðfangsefni túlkuð á frjálslegan og persónulegan hátt. Fyrri sýningar hans hafa beinst að umbreytingu og tengslum, með áherslu á vöxt og hreyfingu innan náttúrulegra hringrása. Sýningin Milli fjalls og fjöru byggir á þessum grunni. Hún rannsakar rýmið á milli hins fasta og breytilega, þar sem náttúrulegir ferlar, litir og áferð mætast og til verða fjölbreyttar myndrænar lýsingar á umbreytingu og tengslum.

Ýmir Grönvold býr og starfar í Reykjavík. Hann útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands með BA-gráðu í myndlist 2018 og var í skiptinámi við KABK og Konunglegu listaakademíuna í Den Haag. Ýmir vinnur með málverk, teikningar og fundin efni og hefur í verkum sínum rannsakað fjölbreytt þemu, allt frá Tarot og andlegri leit til landslags og náttúrutúlkunar.

 

Ýmir Grönvold

Hvernig fæðist hugmynd að listaverki?

Listamenn nota margskonar aðferðir til að miðla og tjá hugmyndir sínar. Í myndlist merkir orðið miðill þá leið eða aðferð sem listamaður hefur valið til að vinna verk sín í. Til eru fjölbreyttar miðlunaraðferðir og skilin á milli þeirra geta verið óljós. Sumir listamenn nota miðla sem löng hefð er fyrir á meðan aðrir gera tilraunir með ólík efni og tækni til þess að ná fram þeim áhrifum sem verið er að sækjast eftir.

Markmið sýningarinnar er að fræða safngesti um ólíka miðla myndlistar út frá völdum verkum úr safneign Listasafnsins á Akureyri. Verkin eru fjölbreytt, eftir ólíka listamenn og unnin með margskonar aðferðum.

Safngestir fá jafnframt tækifæri til að setja mark sitt á sýninguna, sækja sér innblástur í verkin og skapa sína eigin list í hvetjandi umhverfi.

Sýningarstjóri: Heiða Björk Vilhjálmsdóttir.