„Stórt framfaraskref fyrir flugvöllinn“
„Við höfum beðið lengi eftir þessum degi. Nýir aðflugsferlar hafa gífurlega þýðingu fyrir Akureyrarflugvöll, þeir munu styrkja mjög flugstarfsemina hér,“ sagði Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður, við akureyri.net í gærkvöldi í tilefni þess að nýir aðflugsferlar að Akureyrarflugvelli úr suðri voru kynntir. „Þetta er mikið og stórt framfaraskref fyrir flugvöllinn,“ sagði Njáll Trausti.
- Frétt akureyri.net í gærkvöldi: Nýir aðflugsferlar úr suðri kynntir í dag
Hinir nýju aðflugsferlar taka gildi 19. mars en ekki verður byrjað að notast við þá fyrr en í fyrsta lagi einhvern tíma í sumar eða haust, eftir innleiðingu flugfélaga og þjálfun flugmanna.
Njáll Trausti er flugumferðarstjóri að mennt og starfaði lengi sem slíkur á Akureyrarflugvelli. Hann segir þessa nýju ferla „leikbreyta“ þegar hugsað sé til næstu ára og áratuga.

Fluggeggjarar á annarri gleðistund! Hörður Geirsson og Njáll Trausti Friðbertsson biðu spenntir með símann á lofti, tilbúnir að taka mynd, nokkrum andartökum áður en vél easyJet lenti í fyrsta á Akureyrarflugvelli í október 2023. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Spurður sem flugumferðarstjóri hvað þetta þýði í raun segir Njáll, að aðflugið verði miklu betra. „Það verður hægt að lenda við verri flugveðurskilyrði; í verra skyggni og lægri skýjahæð. Þetta eykur flugöryggi.“
Eins og akureyri.net greindi frá í gærkvöldi er staðan þannig í dag að flugstjórar verða að ákveða í síðasta lagi í 1250 feta hæð og rúmlega 8 kílómetra fjarlægð frá brautarenda, hvort þeir ætla að lenda á Akureyrarflugvelli eða snúa frá. Eftir að nýi búnaðurinn verður tekinn til notkunar geta þeir beðið með ákvörðun þar til 1,4 km frá brautarenda, þegar vélin er í 320 feta hæð.
Þetta er gríðarleg breyting. Njáll segir að mun oftar verði hægt að lenda þótt skyggni sé ekki gott eða veðurskilyrði slæm að einhverju öðru leyti. „Þetta bætir því nýtingarhlutfall vallarins,“ segir hann. „Við, Vinir Akureyrarflugvallar höfum verið með þetta mál á dagskrá hjá okkur síðan 2017. Við fögnum því þess vegna mjög að þetta sé loks að gerast, eftir næstum því 10 ára baráttu.“