Fara í efni
Skógarböðin

Óvenju fáar kvartanir á N1 mótinu í ár

Mikill fjöldi fólks fylgdist með N1 móti KA síðustu daga. Mynd: Skapti Hallgrímsson

39. N1 mótinu lauk í dag á KA-svæðinu, þar sem rúmlega 2000 krakkar öttu kappi í 204 liðum frá 38 félögum allstaðar að af landinu. Mótið hefur farið vel fram og þegar mótsstjórn er spurð, stendur það upp úr, að það hafa verið óvenju fáar kvartanir á mótinu í ár. 

„Þegar mótið er farið af stað, er ekkert sem að stoppar það,“ segir Siguróli Sigurðsson, einn þriggja í mótsstjórn. „Við erum búnir að vera þrír í þessari stjórn síðustu 11 árin og þetta rúllar bara. Þegar það koma upp óvænt verkefni, þá leysum við þau og í ár hafa verið óvenju fáir hnökrar.“ Ásamt honum eru þeir Sævar Pétursson og Ágúst Stefánsson í stjórninni.

Á hverju kvöldi mótsins, tekur þríeykið á móti öllum fararstjórum mótsins á fund og þar er farið yfir stöðuna í hverri herbúð fyrir sig. „Þar er einimtt umræðuvettvangur fyrir það sem má betur fara, og á öllum okkar 11 árum í þessu munum við ekki eftir jafn góðum fundum. Kvartanirnar eru helst að það er of löng biðröð í sundlaugina.“

Það er alltaf eitthvað drama í hita leiksins, það fylgir alltaf svona stóru móti, en Siguróli segir að það litla sem komið hafi upp í ár hafi verið leyst á staðnum innan þeirra félaga sem áttu í hlut. „Þá erum við bara að tala um einhverja pústra á milli leikmanna eða eitthvað slíkt. Ekkert alvarlegt,“ segir Siguróli. „Við erum með 15.000 gesti, það eru alltaf einhverjir svartir sauðir, en það er sögulega lítið af leiðindum í ár.“

„Það er svipaður fjöldi keppenda eins og undanfarin ár, en núna virðast vera fleiri sem fylgja krökkunum af því að við upplifum mikla fjölgun á svæðinu,“ segir Siguróli. „Maturinn hefur verið nálægt því að klárast, bílastæðamálin hafa verið flókin og það er meira rusl. Þetta segir okkur að það eru fleiri að mæta á svæðið en áður.“

Siguróli segir að lokum, að það sé tiltekt eftir mótið kl. 11 í fyrramálið og öll séu velkomin!