KA mætir KR í Bestu deildinni í Laugardal

KA sækir KR heim í dag í 14. umferð Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Liðin mætast á heimavelli Þróttar í Laugardal, AVIS-vellinum, þar sem vinna stendur enn yfir við leggja gervigras á KR-völlinn vestur í bæ. Leikurinn hefst kl. 16.00 og verður sýndur á einni sjónvarpsrása Sýnar Sports.
KA-menn tóku á móti KR-ingum í fyrstu umferð Íslandsmótsins 6. apríl í bráðfjörugum leik. Þá varð jafntefli, 2:2, þar sem öll fjögur mörkin voru gerð í fyrri hálfleik: Luke Rae skoraði fyrst fyrir KR, Ásgeir Sigurgeirsson jafnaði og Hans Viktor Guðmundsson kom KA yfir en Jóhannes Kristinn Bjarnason jafnaði.
- Besta deild karla
Þróttarvöllurinn (AVIS-völlurinn) í Laugardal kl. 16
KR - KA
KR er í áttunda sæti Bestu deildarinnar með 16 stig að loknum 13 leikjum en KA er í 11. og næst neðsta sæti með 12 stig, einnig eftir 13 leiki.
Þótt aðeins muni þremur sætum og fjórum stigum á liðunum er samanburður á markatölum þeirra sláandi; KA hefur gert 12 mörk en fengið á sig 25, KR hefur hins vegar skorað 34 mörk og fengið jafn mörg á sig.