Fara í efni
Skógarböðin

Körfubolti: Þór vann með 67 stiga mun

Chloe Wilson vinnur boltann í upphafi leiks. Hún skoraði 33 stig í leiknum og tók 17 fráköst. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Kvennalið Þórs í körfuknattleik spilaði sinn fyrsta leik í 1. deildinni í gærkvöld og vann B-lið Njarðvíkur með 67 stiga mun. Chloe Wilson skoraði 33 stig fyrir Þór. Aníta Rut Helgadóttir var stigahæst gestanna með 11 stig.

Það er ef til vill ekki mikið um þennan leik að segja, svo mikill var munurinn á liðunum enda um mjög ungt lið Njarðvíkur að ræða, leikmenn á aldrinum 16-19 ára, reyndar á móti mjög ungu liði heimakvenna í Þór, 16-18 ára, en munurinn sá að í Þórsliðinu eru að auki fjórar erlendar á aldrinum 22-29 ára. Emma Karólína Snæbjarnardóttir, 17 ára nýr fyrirliði Þórs, gefur erlendu leikmönnunum í Þórsliðinu reyndar ekkert eftir, skoraði 20 stig og tók 11 fráköst.

María Sól Helgadóttir, 16 ára leikmaður Þórs, skoraði átta stig í leiknum. Þorgerður Tinna Kristinsdóttir er til varnar. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Það kom líka fljótt í ljós í leiknum hvert stefndi. Þór skoraði fyrstu sjö stig leiksins og hafði mikla yfirburði í öllum þáttum leiksins, hittnin mun betri, öflugri í fráköstum, 74 á móti 31 þegar upp var staðið, og sigldi Þórsliðið hratt fram úr gestunum á meðan þeim gekk afar illa að hitta ofan í körfuna. Strax í fyrri hálfleik var Chloe Wilson komin með 22 stig og 12 fráköst, en skotnýtingin þó „ekki nema“ 50%. 

Þór skoraði síðan 20 fyrstu stig seinni hálfleiksins og ekki bætti úr skák fyrir Njarðvíkinga þegar þær misstu eina úr sínum hópi út úr leiknum, að því er virtist vegna meiðsla á fingri eða fingrum. Þegar upp var staðið var munurinn orðin 67 stig, 112-45.

Sigurlaug Eva Jónasdóttir, 16 ára Keflvíkingur, spilaði sinn fyrsta leik með Þór í gær. Myndir: Helgi Heiðar Jóhannesson.

Yfirburðir Þórsliðsins gáfu þjálfurum tækifæri til að nýta allan hópinn, en reyndar voru aðeins átta leikmenn á skýrslu. Varamennirnir spiluðu á bilinu 17-21 mínútu og skoruðu 5-8 stig hver. Chloe Wilson var stiga h

æst í Þórsliðinu með 33 stig og tók 17 fráköst. Iho Lopez tók 18 fráköst og Yvette Adriaans átti sjö stoðsendingar. 

Þór - Njarðvík b (28-9) (28-11) 56-20 (24-6) (32-19) 112-45

Helstu tölur Þórsliðsins, stig/fráköst/stoðsendingar: 

  • Chloe Wilson 33/17/6 - 42 framlagsstig
  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir 20/11/3
  • Yvette Adriaans16/12/7
  • Iho Lopez 14/18/2
  • Emilie Ravn 9/7/6
  • María Sól Helgadóttir 8/1/1
  • Hjörtfríður Óðinsdóttir 7/0/1
  • Sigurlaug Eva Jónasdóttir 5/3/0

Tölfræði leiksins.

Staðan í deildinni.

Næsti leikur Þórsliðsins verður mun erfiðari, en strax á laugardag sækja þær lið Aþenu heim í Breiðholtið. 

Lidia Mirchandani, þjálfari Þórs, fer yfir leikinn með leikmönnum eftir öruggan sigur. Frá vinstri: Yvette Adriaans, María Sól Helgadóttir, Iho Lopez, Emilie Ravn, Lidia Mirchandani, Hjörtfríður Óðinsdóttir, Emma Karólína Snæbjarnardóttir, Sigurlaug Eva Jónasdóttir og Chloe Wilson. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson.