Fara í efni
Skógarböðin

Hallgrímur og Julia íþróttafólk KA 2025

Íþróttafólk KA 2025; blakkonan Julia Bonet Carreras og knattspyrnumaðurinn Hallgrímur Mar Steingrímsson. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnumaðurinn Hallgrímur Mar Steingrímsson og blakkonan Julia Bonet Carreras voru kjörin íþróttafólk KA árið 2025. Niðurstaðan var kunngjörð á 98 ára afmælisfögnuði félagsins í dag. 

Böggubikarinn í ár hlutu Sóldís Júlía Sigurpálsdóttir úr blakdeild KA og Þórir Hrafn Ellertsson úr knattspyrnudeild KA. Um er að ræða farandbikar sem veittur er pilti og stúlku á aldrinum 16-19 ára sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega.

Þetta er annað árið í röð sem Julia Bonet Carreras er kjörin íþróttakona KA en hún var frábær með KA í fyrra þegar liðið varð Íslands-, bikar- og deildarmeistari. Hallgrímur Mar átti frábært sumar þar sem hann varð markahæsti leikmaður KA og var valinn í lið ársins í Bestu deildinni. Þetta er í annað sinn sem Hallgrímur er kjörinn íþróttakarl KA; hann hlaut nafnbótina einnig árið 2023.

Alex Cambray Orrason úr lyftingadeild KA varð annar í kjörinu til íþróttakarls KA og jafnir í þriðja sæti urðu handboltamaðurinn Bjarni Ófeigur Valdimarsson og Zdravko Kamenov, leikmaður blakliðs KA.

Drífa Ríkarðsdóttir frá lyftingadeild varð önnur í kjörinu til íþróttakonu KA og handknattleikskonan Anna Þyrí Halldórsdóttir varð þriðja.

Kraftlyftingafólkið Drífa Ríkarðsdóttir og Alex Cambray Orrason – þau urðu í 2. sæti í kjöri íþróttakonu og íþróttakarls KA.

Handboltafólkið Anna Þyrí Halldórsdóttir og Bjarni Ófeigur Valdimarsson; þau urðu í 3. sæti í kjöri íþróttakonu og íþróttakarls KA. Blakarinn Zdravko Kamenov var jafn Bjarna Ófeigi í 3. sæti en var fjarverandi.

Enn eitt magnað ár Hallgríms

„Hallgrímur Mar Steingrímsson átti enn og aftur mjög gott sumar með KA árið 2025 og var valinn besti leikmaður liðsins,“ segir á vef KA. Hallgrímur varð markahæstur KA-manna í sumar með 16 mörk; gerði 13 í efstu deild Íslandsmótsins, Bestu deildinni, tvö í Sambandsdeild Evrópu og eitt í bikarkeppni KSÍ, Mjólkurbikarnum.

„Frammistaða Hallgríms skipti sköpum að lið KA náði að snúa taflinu við í sumar og enda tímabilið vel eftir erfiða byrjun, að sumrinum loknu var hann verðlaunaður með því að vera valinn í lið ársins í Bestu deildinni á flestum miðlum. Hallgrímur sýndi einnig hversu öflugur leikmaður hann er í Evrópuleikjunum gegn Silkeborg IF þar sem hann var meðal bestu manna í einvíginu en jöfnunarmark hans á lokamínútum leiksins í Danmörku sýndi enn og aftur töfrana sem Hallgrímur býr yfir. Hallgrímur Mar er bæði leikjahæsti og markahæsti knattspyrnuleikmaður í sögu KA og var tímabilið í ár enn ein staðfestingin á að hann er einn af bestu leikmönnum í sögu efstu deildar á Íslandi,“ segir á heimasíðu KA.

Íþróttafólk KA 2025 ásamt fjórum formönnum félagsins sem viðstaddir voru athöfnina í dag. Frá vinstri: Eiríkur S. Jóhannsson núverandi formaður, Ingvar Már Gíslason, Julia Bonet Carreras, Hallgrímur Mar Steingrímsson, Hrefna Gunnhildur Torfadóttir og Hermann Sigtryggsson.

Julia frábær leikmaður

„Julia Bonet Carreras átti frábært tímabil með meistaraflokki kvenna í blaki og er afar mikilvægur leikmaður fyrir KA liðið sem stóð uppi sem handhafi allra stóru titlanna og er liðið því Íslands-, Bikar- og Deildarmeistari. Julia sem spilar stöðu kantsmassara var stigahæsti leikmaðurinn í efstudeild á síðasta tímabili ásamt því að vera besti uppgjafarinn. Hún var í liði ársins í úrvalsdeild hjá Blaksambandinu ásamt því að vera valinn besti erlendi leikmaðurinn í deildinni sem sýnir hve mögnuð hún er,“

SÓLDÍS OG ÞÓRIR FENGU BÖGGUBIKARINN

Sóldís Júlía Sigurpálsdóttir úr blakdeild KA og Þórir Hrafn Ellertsson úr knattspyrnudeild KA hlutu Böggubikarinn á 98 ára afmælisfögnuði félagsins í dag.

Blakstúlkan Sóldís Júlía Sigurpálsdóttir og Þórir Hrafn Ellertsson, fyrirliði 2. flokks KA í knattspyrnu, fengu Böggubikarinn að þessu sinni. „Böggubikarinn er farandbikar sem veittur er einstaklingum, pilti og stúlku, á aldrinum 16-19 ára sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega,“ segir m.a. á heimasíðu KA. Þar segir m.a. um íþróttafólkið unga:

  • „Sóldís Júlía Sigurpálsdóttir er gríðarlega efnileg og metnaðarfull í blakinu og þrátt fyrir ungan aldur hefur hún verið lykilleikmaður bæði fyrir U20 og meistaraflokkslið KA undanfarið ár og vann alla stóru titlana sem í boði voru með meistaraflokki en hún vakti verðskuldaða athygli fyrir framgöngu sína í bikarúrslitahelginni þar sem KA landaði bikarmeistaratitlinum eftir æsispennandi fimm hrinu leik,“ segir m.a. á heimasíðu KA í dag.
  • „Þórir Hrafn Ellertsson átti frábært ár, bæði innan sem utan vallar. Á vellinum leiddi hann 2. flokk sem fyrirliði er liðið sló út FS Jelgava frá Lettlandi í Evrópukeppni landsmeistara. Í kjölfarið áttu strákarnir hörkuleiki gegn gríðarsterku liði PAOK frá Grikklandi og stóðu sig afar vel. Á Íslandsmótinu safnaði liðið flestum stigum allra liða yfir sumarið en fyrirkomulagið er að lokalotan ræður úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Í síðustu lotunni endaði lið Þóris í öðru sæti eftir góða frammistöðu.“