Fara í efni
Sjúkrahúsið á Akureyri

Nýtt vatnshreinsikerfi fyrir blóðskilun á SAk

Í síðustu viku var tekið í notkun nýtt vatnshreinsikerfi fyrir blóðskilun á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk). Um er að ræða byltingu í vatnshreinsimálum og er kerfið mun öruggara og hljóðlátara en fyrra kerfi. Þetta kemur fram á heimasíðu stofnunarinnar.

„AquaBPlus kerfið er alger bylting fyrir okkur. Uppsetning hófst í byrjun síðustu viku og strax á fimmtudag gátum við byrjað að notað það,“ segir Sólveig Tryggvadóttir, hjúkrunarfræðingur á blóðskilun SAk. Nýja vatnshreinsikerfið leysir af hólmi fjögur minni vatnshreinsitæki sem voru fyrir eina vél hvert áður. Hávaðinn af hverju tæki var 46 desibel í eins meters fjarlægð og fjögur þannig voru í gangi hverju sinni. „Það má því með sanni segja að þetta sé bylting.“

Einnig er hægt að hafa eftirlit með ástandi og daglegum meðferðum frá höfuðstöðvum Fresenius Medical Care sem einfaldar allt eftirlit og tilfallandi viðgerðir, að sögn Sólveigar.
        _ _ _

HVAÐ ER BLÓÐSKILUN?
Nýrun sjá m.a. um að hreinsa blóðið af úrgangsefnum og steinefnum og útskilja umfram vökva en ef afkastageta þeirra minnkar verulega er hugað að meðferð til að bæta hana upp. „Þau meðferðarúrræði sem um er að velja eru skilun, ígræðsla nýra eða einkennameðferð. Það fer eftir aðstæðum hvers og eins hvaða meðferð kemur til greina og hentar,“ segir á heimasíðu Landspítalans.
_ _ _

AquaBPlus vatnshreinsikerfið fyrir blóðskilun, fyrir sex skilunarvélar að hámarki, er inni í sér herbergi. Kostnaður við nýja kerfið og uppsetningu þess er 18,5 milljónir kr. sem greiðist af Landspítalanum þar sem blóðskilun SAk er útstöð frá skilunardeild þeirrar stofnunar.

Á myndinni má sjá hópinn sem kom að uppsetningunni á SAk. Frá vinstri: Davíð Björnsson (pípari á tæknideild SAk), Lukas Krines (Fresenius Medical Care), Klaus Vesterbaek (Fresenius Medical Care), Sólveig Tryggvadóttir (hjúkrunarfræðingur á blóðskilun SAk), Sigurrós Halldórsdóttir (Icepharma), Ásbjörn Sigþórsson (tæknideild LSH), Selma Maríusdóttir (deildarstjóri skilunardeildar LSH), Marta Serwatko (vörustjóri LSH), Arnaldur Haraldsson (tæknideild SAk), Stefán Helgi Garðarsson (tæknideild SAk), Karl Kristinn Stefánsson (tæknideild SAk), Nils-Brinks Larsen (Fresenius Medical Care) og Freyja Sigursveinsdóttir (hjúkrunarfræðingur á blóðskilun SAk).

NÁNAR UM BLÓÐSKILUN

  • Tilgangur skilunarmeðferðar er að koma í stað þeirrar starfsemi nýrnanna sem hefur skerst og hreinsa úrgansefni, steinefni og vökva úr blóðinu. Jafnframt er sýrustig líkamans leiðrétt. Til að blóðskilun sé möguleg þarf að skapa aðgengi, æðaaðgengi, að blóðrás líkamans um bláæð. Það er hægt að gera með fistli, gerviæð (grafti) eða ígræddum blóðskilunarlegg.
  • Í blóðskilunarmeðferð er æðaaðgengið tengt við tvær slöngur á blóðskilunarvél. Blóð er dregið út úr líkamanum um aðra slönguna, því dælt í gegnum blóðskilunarvél og filter (skila) á henni og síðan dælt aftur inn í líkamann. Um er að ræða lokaða hringrás og aðeins brot af blóði líkamans er utan hans í einu. Í filternum á sér stað hreinsun og leiðrétting á úrgangsefnum og steinefnum ásamt því að vökvi sem hefur safnast upp er skilinn út. Læknir gefur fyrirmæli um hversu löng hver blóðskilunarmeðferð er. Til að byrja með er hún framkvæmd oft en stutt í einu til að koma í veg fyrir óþægindi sem geta komið fram ef úrgangsefnin eru hreinsuð of hratt úr líkamanum.
  • Eftir fyrstu skiptin er tíminn lengdur, oftast í 3 - 4 klukkustundir í senn þrisvar sinnum í viku.

Umfjöllun Akureyri.net í mars 2022:

Viljum auka lífsgæði nýrnasjúklinga

„Verk sem verður ekki undan vikist“