Hluta geðþjónustu SAk lokað í mánuð
Dag- og göngudeild geðþjónustu á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) verður lokað tímabundið í rúman mánuð, frá og með mánudeginum 11. desember til og með föstudeginum 12. janúar. Lokunin er til komin vegna endurskoðunar og umbóta á starfseminni, skv. upplýsingum frá SAk.
- Á þessu tímabili mun öll starfsemi fyrir fullorðna í þjónustu dag- og göngudeildar stöðvast, nema bráðastarfsemi og ákveðnir hópar. Starfsemi barna- og unglingageðteymis (bug) verður að mestu leyti óbreytt. Móttakan verður lokuð ásamt símsvörun, en hægt að koma boðum á deildina í gegnum netfangið mottakasel@sak.is, þangað sem einnig má senda erindi til BUG-teymisins.
Erla Björnsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs SAk, segir í svari við fyrirspurn frá Akureyri.net að verið sé að bregðast við fækkun geðlækna og vaxandi aðsókn að dag- og göngudeild geðsviðsins, unnið sé að því að finna út leiðir til að geta þjónustað fleiri, en láta það ekki hafa áhrif á gæði þjónustunnar og í grundvallaratriðum sé unnið að því að styrkja starfsemina sem best svo hún ráði sem allra best við vaxandi eftirspurn eftir þessari mikilvægu þjónustu. Erla segir ekki ákveðið hver endanleg afurð verður enda sé mikil vinna fram undan hjá starfsfólki við þessar metnaðarfullu umbætur.
Markmiðið bætt þjónusta
Það kann að hljóma undarlega að bæta þjónustuna með því að loka hluta deildarinnar í nokkrar vikur, en Erla útskýrir það þannig að þar sem verið sé að vinna að heildarendurskoðun á þjónustunni, sé mikilvægt að skapa andrými fyrir þá vinnu með tímabundinni lokun. Hún segir markmiðið að sjálfsögðu að lokaafurðin af þessari vinnu verði bætt þjónusta við sjúklingana sem og bætt starfsumhverfi fyrir alla starfsemi geðþjónustu. Allur starfsmannahópurinn sé einbeittur að því að ná þeim árangri á skömmum tíma.
Erla vill um leið árétta að öllum bráðatilvikum verður sinnt. Lokunin hafi verið vel undirbúin, þeim sem metin eru í bráðaeftirlit verði sinnt, og skipulagðir tímar hafi verið færðir til í samráði við sjúklinga. Einnig verði þjónusta bug-teymis óbreytt.