Fara í efni
Sjúkrahúsið á Akureyri

70 ár í dag frá fyrstu innritun á spítalann

Í dag, 15. desember, eru 70 ár síðan fyrstu sjúklingarnir voru innritaðir á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA) við Eyrarlandsveg, stofnunina sem nú heitir Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk). Þá voru fimm ár síðan byggingin sjálf var fullgerð.

Þetta er rifjað á vef Sak í morgun:

Sumarið 1946 var hafist handa við byggingu nýs spítala á Akureyri. Áður var starfræktur spítali J. Gudmanns Minde við Spítalaveg 11. Arkitekt nýja sjúkrahússins var Guðjón Samúelsson og byggingin var fullbyggð árið 1948. Sjúklingarnir sem innrituðust voru samtals 47 og tók flutningurinn um klukkustund. Þó var sjúkrahúsið ekki formlega tekið til starfa og enn vantaði upp á mönnun og tæki og tól. Það sem var til staðar á þessum tíma var eftirfarandi skv. heimildum:

 • 38 sjúkraherbergi

 • 4 læknar

 • 1 læknanemi

 • 10 hjúkrunarkonur

 • 6 hjúkrunarnema

 • 2 ljósmæður

 • 17 starfsstúlkur

 • 1 stúlka á röntgen

 • 1 stúlka á rannsókn

 • 1 nuddlæknir í hálfu starfi

 • 1 ráðskona

 • 3 eldastúlkur

 • 1 ráðsmaður

 • 3 karlmenn til ýmissa verka

„Á þessum 70 árum hefur ýmislegt breyst en þó ekki. Núna er miklu fleiri heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir mun fjölmennari sjúklingahópi með nýjustu tækni og meðferðarmöguleikum. Hinsvegar er húsnæði enn nýtt undir legudeildir og það er sannarlega kominn tími á breytingar,“ Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk.

Aðdáunarverð útsjónarsemi

„Það er aðdáunarvert hversu útsjónarsamt starfsfólk var fyrir 70 árum en það sama gildir um starfsfólkið í dag. Áskoranir samtímans eftir heimsfaraldur hafa verið krefjandi og kalla á annað starfsumhverfi og betri aðstöðu fyrir sjúklinga. Núverandi aðstæður á legudeildum þessa húsnæðis sem á 70 ára afmæli uppfylla ekki lengur nútíma kröfur. Þó verður að hrósa starfsfólki SAk fyrir það hversu úrræðagott það hefur verið með vinnuumhverfið og viðhald hefur verið tryggt eins og kostur er. Ný legudeildarálma sem nú er í sjónmáli er eini raunhæfi kosturinn til þess að leysa húsnæðisvanda núverandi legudeilda í elstu álmu sjúkrahússins. Sjúkrahúsið á Akureyri vill geta veitt öruggt og skilvirkt umhverfi fyrir bæði sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólk,“ segir forstjórinn.

„Við getum því litið á það sem rausnarlega afmælisgjöf að undirbúningur að hönnun og útboði nýrrar legudeildarbyggingu sé kominn vel á veg. Þetta er mikilvægur áfangi í þeirri vegferð að efla sjúkrahúsið okkar og þjónustu við samfélagið allt,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir.

 • Á þessum degi fyrir 10 árum voru Hollvinasamtök SAk stofnuð. Markmið Hollvina er að styðja og styrkja starfsemi sjúkrahússins. Það er gert með að vekja athygli á og hvetja til eflingar starfseminnar á opinberum vettvangi í samráði við framkvæmdastjórn sjúkrahússins.

Nánar um Hollvinasamtökin hér: https://island.is/s/sak/hollvinir

Sjúkrahúsið á Akureyri og næsta nágrenni í dagí dag. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson