Fara í efni
Sigmundur Ernir

Þríhjól

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 2

Rauða þríhjólið mitt var innflutt. Það eitt, og út af fyrir sig, var einstakt. Enda þekktu landsmenn ekkert annað en innflutningshöft á sjöunda áratug síðustu aldar.

En það var líka nýtt upp úr kassanum. Það var jafnvel enn þá furðulegra. Það var nefnilega til siðs á þessum árum að yngri bræðurnir fengju það sem þeir eldri höfðu þegar notað.

En Gunni bróðir hafði aldrei eignast þríhjól. Líklega leið hann fyrir það að vera fimm árum eldri en ég. Og það hefur verið minna á milli handanna þegar hann var smákrakki.

En pabbi er sumsé búinn að setja saman hjólið frammi í forstofu. Það ku hafa verið á laugardegi, daginn eftir að ég varð þriggja ára. Og það er búið að lyfta mér upp á það. Allur ættboginn horfir á þegar ljóshærði ponninn stígur pedalana í gang. Og almenn hrifning er í húsinu þegar dekkin fara af stað.

Svissneskt, segir fullorðna fólkið með aðdáun á vörum. En það man ekki til þess að hafa séð svona útlenskt hjól á ævi sinni. Sýpur, sumt hvert, hveljur. En það stendur skýrum stöfum framan á neðanverðu stýrinu að fararskjótinn heiti Wisa Gloria.

Útlenskara verður það nú ekki.

Svo er tekin ljósmynd af okkur Gunna bróður. Við erum báðir í sparifötunum og hárið hefur verið vatnsgreitt. Og sá er munurinn á okkur að ég sit á hjóli, en hann stendur, með öfundarsvip í augum.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Á komandi misserum munu birtast vikulegir pistlar hans á akureyri.net um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.

  • Í NÆSTU VIKU: VINUR

Draugagangur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
11. nóvember 2024 | kl. 11:30

Kótilettur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
04. nóvember 2024 | kl. 11:30

Innskotsborð

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
28. október 2024 | kl. 11:30

Berrasssa

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
21. október 2024 | kl. 11:30

Ylfingur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
14. október 2024 | kl. 11:30

Danstímar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
07. október 2024 | kl. 11:30