Fara í efni
Sigmundur Ernir

Ford Bronco

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 41

Það voru mikil umskipti í lífi sex manna fjölskyldu á Syðri-Brekkunni þegar afráðið var að skipta litlum fólksbíl út fyrir jeppa. Í minningunni gerðust þau undur öll um 1969, litlu eftir að býttað var úr vinstri umferðinni á Íslandi – og haldið var yfir á hægri kantinn. Hvernig sem það var nú hægt.

Fyrir valinu varð Ford Bronco, nokkur ferkantaður kassabíll með hásingarnar svo langt frá jörðu að það sást vel upp undir hann. Og þótti nú ekkert sérlega smart að mati mömmu sem varð að klofa helst til klaufalega upp í tryllitækið.

En pabbi var sannfærður. Og það í meira mæli en nokkru sinni. Nú gæti hann farið fyrstur manna í laxveiðina í Fnjóská og Laxá í Aðaldal án þess að eiga það á hættu að festa farartækið í forinni. En þannig háttaði náttúrlega til að allir vegaslóðar norðan lands þornuðu ekki að ráði fyrr en síðustu dagana í júní. Og voru forarpyttir fram að því. En þannig var tíðin.

Vandinn var aftur á móti sá að Ford Bronco var ekki ökuþýður bíll. Þar var langur vegur frá. Í öllu falli þessar árgerðir hans í gamla daga. Jeppinn sá arna var raunar svo hastur að þegar hann var ræstur á heimahlaðinu var hann við það að velta. Og þess utan var eins og bensíngjöfin og kúplingin væru svo fjarskyldar frænkur að hvorug þekkti til hinnar. Þess vegna átti þessi bandaríski trukkur það til að drepa á sér upp úr þurru, jafnvel við það eitt að taka af stað.

Pabba fannst þetta súrt. Vitaskuld. Það var enginn almennilegur stæll á karlálftinni þegar hún fór um brekkurnar í heimabænum á þessu höktandi himpigimpi, og þess þá síður þegar hann var við það að velta vesalings karinu á leiðinni í laxveiði. Svo hann seldi kokkálaðan kúrekann í skiptum fyrir skaplegri gæðing, konungborinn meira að segja. En Range Rover var það heillin!

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: LAX

Sperðlar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
09. desember 2024 | kl. 11:30

Snjóhúsin

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
02. desember 2024 | kl. 11:30

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30

Draugagangur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
11. nóvember 2024 | kl. 11:30

Kótilettur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
04. nóvember 2024 | kl. 11:30