Fara í efni
Sigmundur Ernir

Falskar tennur

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 9

Öldum saman var tannhirðu Íslendinga ábótavant – og fyrir vikið sáust ekki gleiðar brosviprur fyrr en á síðustu öld. Þær má að mestu þakka þeirri kærkomnu uppfinningu að smíða stell upp í bitlaust fólk.

Illa tenntur almúginn hafði náttúrlega ekki treyst sér til að brosa fram að því, ýmist með brunna garðana í báðum gómum, ellegar tannlaus með öllu sakir vannæringar sem veikti bæði bein og hold.

Hörgulsjúkdómar voru nefnilega fylgifiskur fátækra landsmanna frá einni kynslóð til annarrar – og þess vegna er alla jafna sama holninginn á bændum og búaliði á ljósmyndum fyrri tíma. Þar stendur mannskapurinn hokinn á hlaðinu framan við húsaburstirnar, svo alvörugefinn að það getur jafnvel verið óþægilegt að rýna í hvert andlitið af öðru.

En það hvarflaði ekki að einum þeim einasta sem þarna stóð í nepjunni að brosa framan í myndavélina. Kannski þó saklausum börnum, einna helst, en fullorðinstennur hinna voru að jafnaði farnar veg allrar veraldar.

Falskar tennur breyttu því sjálfsmynd heillar þjóðar þegar þær komu til sögunnar í seinna stríði. Og svo áfjáðir voru landsmenn í þær að það var farið að gefa gervitennur í fermingargjafir, innpakkaðar í glanspappír, með skærri slaufu.

Sjálfur vandist Sigmundur afi aldrei fölskum tönnum sínum. Þær sátu svo illa. Hann tók þær gjarnan út úr sér ef það var grautur í matinn og setti í vatnsglasið. Þá fannst honum hæfa að sötra vellinginn með innföllnum vörunum.

Amma hafði af þessu ama – og sjálfum fannst mér það aldrei neitt sérstaklega matarlegt að sjá brosið í glasinu.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Á komandi misserum munu birtast vikulegir pistlar hans á akureyri.net um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.

  • Í NÆSTU VIKU: FORD CORTÍNA

Þúfnaganga

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. maí 2024 | kl. 13:30

Skíðaferðir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
06. maí 2024 | kl. 11:30

Heklupeysur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. apríl 2024 | kl. 11:00

Sígildar sögur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
15. apríl 2024 | kl. 11:30

Sparksleði

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
08. apríl 2024 | kl. 11:30

Lonníettur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
01. apríl 2024 | kl. 11:30