Fara í efni
Sigmundur Ernir

Dauðinn bak við stýrið

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 36

Manndómstáknið var að eiga hjól. Og sitja það eins og maður.

Það var ekkert virðingarverðara í æsku daga minna en að geta farið á milli bæjarhverfanna á silfruðum stálfáki. Og stigið pedalana af ákafa. Keyrt af ódauðlegum krafti. Af því að ekkert gat stoppað strák á manns aldri.

En þannig liðu dagarnir. Við hjóluðum út í eitt. Norður og niður Brekkuna og suður Innbæinn – og gott ef okkur bauðst ekki að æða út um Þorpið svo til óáreittir, illa boðnir Brekkusniglarnir.

Helst með vallas-tappana flatta út í gjörðinni, en það var til merkis um hvað maður væri mikill gaur. Og hefði nú drukkið margar flöskurnar.

En það var tekist á um týpurnar, hjólamerkin. Og menn voru ekki á eitt sáttir hvaða tegund væri svölust undir klofi manns.

Smám saman komst það þó í hámæli að DBS væri virtúinn í víravirki okkar strákanna á Syðri-Brekkunni. Þessi norska nosturssmíði stæði framar öllum öðrum hjólhestum á borð við bresku Humberana og þýsku Holsatíurnar og hvað þá bandarísku Laclederana.

En það var ekki síst hvað hrútsstýrin voru fallega löguð á norsku reiðskjótunum fyrir nú utan haganlega hannaða dýnamóana og glæsileg glitaugun sem lýstu betur í myrkrinu en nokkrir aðrir ljósgjafar. Svo sló allt annað út, en standararnir á DBS voru á við yfirlýsingu. Með einu hælsparki, auðveldu, stóð farartækið stillt á sínum punkti, og haggaðist ekki. Aðrar græjur höfðu ekki roð í þá tekník.

Andstæðingar okkar DBS-anna uppnefndu hjólin okkar Dauðann bak við stýrið, en það hnikaði okkur ekki. Því ef maður var eitt sinn DBS, var maður það alltaf.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: ÞJÓÐVEGIR

Sperðlar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
09. desember 2024 | kl. 11:30

Snjóhúsin

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
02. desember 2024 | kl. 11:30

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30

Draugagangur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
11. nóvember 2024 | kl. 11:30

Kótilettur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
04. nóvember 2024 | kl. 11:30