Fara í efni
Sigmundur Ernir

Apótekaralakkrís

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 13

Fyrstu fíkn mína má rekja til þess þegar ég skondraðist með mömmu inn í apótek í Hafnarstræti. Hún kallaði það raunar lyfjabúð til aðgreiningar frá ömmu gömlu sem fann til kjálkans ef mannskapurinn kunni ekki að hafa það á dönsku.

En ég er sumsé ansi stuttur til hnésins þegar það gerist að öllu eldri pjakkur spyr að því í röðinni á undan okkur mömmu hvort hann megi festa kaup á lakkrísnum í sjoppunni. Og ég finn að múttu bregður heldur illa við, því að hún veit sem er, án þess þó að ég hefði pata af því, að eldri bróðir minn hafði fallið fyrir þessu slikkeríi og gæti ekki lengur á heilum sér tekið nema hann fengi reglulega skammtinn sinn. Og það sem kjafturinn á honum væri kolsvartur fyrir vikið.

En þetta er einmitt minningin. Mamma er í uppnámi út af apótekaralakkrís. Ég kynni að fara sömu leið og Gunni bróðir og verða forfallinn lakkrísfíkill.

Og það gengur náttúrlega eftir. Myndin af piltinum með apótekaralakkrísinn í trantinum á þessum örlagaríka degi í lífi mínu greypist í fylgsnum hugans og víkur ekki þaðan á næstu misserum. Ég verði að prófa svona gotterí og geti tæpast kallað mig sveran nagla nema að hafa prófað að jórtra þann svarta.

Svo atburðarásin verður þessi. Sakleysi æskunnar víkur fyrir einbeittri sviksemi. Ég brýst inn í sparibauk minn með skrúfujárni og töng úr verkfærakassanum hans pabba og bísa þaðan nógu mörgum krónum svo ég geti greitt fyrir góssið. Og af því að ég veit að ég er ekki nógu mikill bógur til að fara einsamall í apótekið, þessara vafasömu erinda, geri ég Gunna bróður að vitorðsmanni mínum, en hann fái sjálfur á að giska einn staut fyrir samsektina.

Og það verður því úr að við bræður örkum niður í miðbæ í fullum trúnaði hvor við annan, enda er sá yngri að feta sín fyrstu skref á afbrotabrautinni, með illa fengna aura í rassvasanum. Og bráðum kominn með kolsvarta tungu í túlanum.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Á komandi misserum munu birtast vikulegir pistlar hans á akureyri.net um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.

  • Í NÆSTU VIKU: STILLIMYND

Lax

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
26. ágúst 2024 | kl. 11:30

Ford Bronco

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
19. ágúst 2024 | kl. 11:30

Tómatar og gúrkur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
12. ágúst 2024 | kl. 11:30

Brúarlandstaxinn

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
05. ágúst 2024 | kl. 11:30

Hvítlaukur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
29. júlí 2024 | kl. 11:30

Þjóðvegir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
22. júlí 2024 | kl. 11:30