Fara í efni
Samherji

88% ferðuðust bara um Norðurland

81%, sagði dvölina á Norðurlandi hafa verið frábæra, samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar RMF. Mynd: Þórhallur Jónsson
Erlendir ferðamenn sem koma með beinu flugi til Akureyrar fara meira um landshlutann Norðurland en aðra og þannig skapar beina flugið raunverulega viðbót við þann fjölda sem heimsækir landshlutann, segir í fréttatilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands.
 
Mikill meirihluti svarenda, 81%, sagði dvölina hafa verið frábæra
 

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í könnun frá Rannsóknarmiðstöð ferðamála meðal ferðamanna sem komu með beinu flugi til Akureyrar veturinn 2024-2025.

Alls voru 906 sem svöruðu könnuninni og af þeim sögðust 88% hafa dvalið eingöngu á Norðurlandi, en 10% sögðust hafa dvalið á bæði Norður- og Austurlandi. Að auki voru 78% svarenda að koma á Norðurland í fyrsta sinn.

 

Línurit af vef Markaðsstofu Norðurlands með niðurstöðum rannsóknarinnar.

Böð, veitingastaðir og hvalaskoðun vinsælast

Að meðaltali dvöldu ferðamennirnir 5,2 nætur á Íslandi. Farþegar í Bretlandsflugum voru almennt í styttri ferðum og dvöldu í þrjár eða fjórar nætur. Farþegar frá Zurich eða Amsterdam dvöldu lengu, að jafnaði um 7 nætur.

Langvinsælasta afþreyingin voru jarðhita- og náttúruböð, en 75% allra svarenda höfðu farið í slíkt bað. Heimsóknir á veitingastaði voru svo nefnd þar á eftir og þriðja vinsælasta afþreyingin var hvalaskoðun.

Einnig var spurt út í heildarupplifun af áfangastaðnum Norðurlandi, sem var mjög jákvæð. Mikill meirihluti svarenda, 81%, sagði dvölina hafa verið frábæra og 17% sögðu hana hafa verið yfir meðallagi.