Fara í efni
Safnkosturinn

Vökvadagbók Guðjóns – Kaffi á pappír

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það verður gert vikulega, á fimmtudögum.
_ _ _ 

SÖFNIN OKKAR – VI
Frá Listasafninu á Akureyri
_ _ _

Guðjón Ketilsson
Vökvadagbók
2014
Kaffi á pappír
Af samsýningunni Hringfarar

Verkið Vökvadagbók eftir Guðjón Ketilson er hluti samsýningar sem nú stendur yfir í Listasafninu á Akureyri og nefnist Hringfarar. Þar sýna, ásamt Guðjóni, listamennirnir Elsa Dóróthea Gísladóttir, Guðrún Hrönn Ragnarsdóttir og Sólveig Aðalsteinsdóttir. Öll vinna þau út frá náttúrulegum ferlum, efniviði og samhengi. Hver og einn hefur sína persónulegu nálgun, en sameiginlega mengið er efniviður úr nærumhverfinu.

Guðjón fæddist (f. 1956) býr og starfar í Reykjavík. Eftir nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands hélt hann til Halifax í Kanada og nam við Nova Scotia Collage of Art and Design. Hann var verðlaunaður myndlistamaður ársins á Íslandi árið 2019 og á langan sýningarferil að baki, bæði á Íslandi og víða erlendis. Í list sinni vinnur Guðjón mest með teikningar og þrívíð verk. Hann vinnur gjarnan með fundna hluti sem geyma minningar og sögur liðinna atburða, skrásetur þá, endurskipuleggur og setur í annað samhengi.

Undanfarin ár hefur Guðjón unnið með skrásetningu og myndgerð ýmissa vökva sem tengjast hversdeginum. Verkin eru eins konar dagbókarfærslur hans, sem settar eru fram sem litir á pappír með handskrifuðum hugleiðingum um efnið og/eða atburði sem hugsanlega tengjast þeim.

Vökvadagbókin er skrásetning á hversdaglegri umgengni Guðjóns við vökva af ýmsu tagi – kaffi, te, ávaxtasafa, vín o.fl. Vökvarnir tengjast gjarnan einhverri stuttri frásögn eða atburði í daglega lífinu. Þessum vökvum hefur hann haldið til haga, málað úr þeim myndir á 20x20 cm. pappír og skrifað á þær dagsetningar og stutta lýsingu.

Til dæmis:

  • „Vont rauðvín frá Chile (Concha y Toro) keypt fyrir vinnuferð í Skagafjörð – Guðjón Ketilsson“
  • „13. apríl 2014 – Espressokaffi á vinnustofunni uþb. tíu dropar í hverjum hring (nema þeim innstu) – Guðjón Ketilsson“
  • „Ágúst 2016 – Ung stúlka á Gunnarsbrautinni var með sólberjasafa til sölu – Guðjón Ketilsson“

Ferlið er þannig að málað er hringform með vökvanum á blaðið. Þegar það hefur þornað, er málaður annar hringur, í við minni ofan í hinn, og svo koll af kolli þar til miðjunni/kjarnanum er náð og innsti hringurinn orðinn mjög smár. Þetta ferli hefur átt sér stað í nokkur ár og er enn í gangi.

Guðjón hefur ávallt meðferðis lítið glas með loki, til að safna þeim vökva sem honum er veittur við hin ýmsu tilefni. Verkið er tímafrekt og unnið af mikilli nákvæmni, fljótt á litið minna myndirnar á sneiðmyndir af trjástofnum, þær eru rammaðar inn og raðað upp af nákvæmni. Verkið er heild pappírsverka með fjölbreyttum textabrotum, lifandi hringjum, margskonar litum og ólíkri áferð sem þó tengjast saman sem heildstæðar dagbókafærslur.