Fara í efni
Safnkosturinn

Flugsafnið: margir munir frá almenningi

SÖFNIN OKKAR – 107

Frá Flugsafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Safngripur vikunnar tengist flugfélagi sem lagði upp laupana 1990 en margir muna eflaust eftir. Um er að ræða litla leikfangaflugvél, sem framleidd var fyrir flugfélagið Arnarflug.

Sumarið 2021 heimsótti fjölskylda frá Bíldudal Flugsafnið og sendi safninu í kjölfarið leikfangaflugvélina til varðveislu. Í bréfinu sem fylgdi segir að fjölskyldan hafi keypt hana um borð í flugvél hjá Arnarflugi árið 1987 á leið í frí til Mallorca. Undir bréfið skrifar Ívar Örn Hauksson fyrir hönd fjölskyldunnar á Dalbraut 9, Bíldudal, en hann var 6 ára þegar vélin var keypt.

Hjónin Gunnar Þorvaldsson og Katrín Pálsdóttir færðu Flugsafninu í lok mars 2024 forláta glerlistaverk með merki Arnarflugs, sem þau keyptu af þrotabúinu eftir að Arnarflug hætti starfsemi 1990.

Margir af þeim munum sem Flugsafnið varðveitir hafa einmitt verið gefnir af almenningi, sem hefur haldið upp á ýmis konar varning sem flugfélögin hafa látið framleiða í gegnum tíðina.

Má þar nefna töskur, farmiðaveski, flugmódel, stundatöflur fyrir yngri kynslóðina, leikföng og ýmislegt fleira.

Leikfangaflugvélin og aðrir munir tengdir Arnarflugi verða til sýnis á Flugsafninu frá og með byrjun júnímánaðar og fram á næsta ár, en sérsýning safnsins í ár verður helguð flugfélaginu í tilefni þess að 50 ár verða liðin frá stofnun þess þann 10. apríl nk. Sýningin verður opnuð með pompi og prakt helgina 5.-7. júní en fyrsta flug félagsins fór í loftið 5. júní 1976.

Sýningin er sett upp í góðu samstarfi við fyrrum starfsfólk og stjórnendur Arnarflugs. Stefán Halldórsson, sem starfaði að flugrekstri Arnarflugs á árunum 1977-1986, tók við kyndlinum af Gunnari heitnum Þorvaldssyni sem tengiliður Arnarflugsfólksins við Flugsafnið. Hér er hann ásamt Arngrími Jóhannssyni á dögunum, þar sem þeir fara yfir eina af logbókum þess síðarnefnda til að staðfesta dagsetningar á ferðum Arnarflugs.

Eins og svo oft áður komu Akureyringar við sögu þegar nýju flugfélagi var komið á fót. Flugstjórarnir Gunnar Þorvaldsson og Arngrímur B. Jóhannsson voru einir af stofnendum félagsins og sinntu báðir stöðu yfirflugstjóra. Gunnar var einnig framkvæmdastjóri Arnarflugs um tíma og var félagið mjög hjartfólgið. Hann var mikill hvatamaður þess að sett yrði upp sýning um Arnarflug árið 2026 en náði því miður ekki að fylgja verkefninu til enda, hann lést eftir erfið veikindi 13. júlí 2024.

Morgunblaðið birti frétt um fyrsta flug Arnarflugs. Ótrúlegt þótti að félagið næði að hefja flug svo skömmu eftir að það var stofnað. Í dagblaðinu Vísi var talað um að líklega hafi verið sett „heimsmet í flýti við stofnun flugfélags þegar Arnarflug fékk vængi á einungis tveimur mánuðum.“