Ruslatröll Jonnu lifna við hjá Minjasafninu

Minjasafnið á Akureyri hefur ákveðið að leigja prjónuðu ruslaverurnar af myndlistarkonunni Jonnu í sumar. Verurnar – sem eru allar tröll í sumar – munu varða leiðina frá miðbæ Akureyrar og að Minjasafninu í Innbænum, en þessi frumlegu útilistaverk hafa vakið mikla athygli hjá gestum bæjarins undanfarin sumur.
Eins og Akureyri.net greindi frá á laugardaginn leit ekki út fyrir að prjónuð útilistaverk listakonunnar Jonnu Jónborgar Sigurðardóttur myndu gleðja vegfarendur á Akureyri í sumar eins og þær hafa gert síðustu fjögur sumur. Jonna hafði boðið Akureyrarbæ að leigja verkin en ekki fengið nein svör. Nú hefur hins vegar orðið viðsnúningur í málinu.
Ruslatröll Jonnu eru á leið úr geymslunni og á rusladalla Minjasafnins á Akureyri og nágrennis. Hugmyndin er sú að þau varði veginn úr miðbæ Akureyrar og alla leið á safnasvæðið í Innbænum.
Tröllin varða veginn að safnasvæðinu
Eftir að umfjöllun Akureyri.net birtist hafði safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri, Haraldur Þór Egilsson, samband við Jonnu og vildi leigja útilistaverkin af henni í sumar. Segir Haraldur að hugmyndin sé sú að ruslatröllin verði hluti af gönguleið frá miðbænum og að safnasvæðinu í Innbænum. Sér hann fyrir sé að gestir geti fylgt litríkum verunum á leið sinni, en það eigi þó eftir að skoða útfærslu á þessari hugmynd betur. Þess má geta að Minjasafnið er nú þegar með eitt skrímsli á lóðinni hjá sér, sjávarskrímsli sem tengist kortasýningu innandyra. „Ég er rosalega ánægð með þessa niðurstöðu, bæði að einhver skyldi stíga fram og hafa samband við mig og vilja fá verkin upp, og svo líst mér líka mjög vel á þessa hugmynd að ruslatröllin varði veginn á Minjasafnið,“ segir Jonna. Nú tekur við vinna hjá Jonnu við að þrífa og laga verkin en stefnt er að því að ruslatröllin verði komin upp fyrir 17. júní.
Jonna hefur á undanförnum árum skapað ýmiskonar ruslaverur sem prýtt hafa rusladalla í miðbæ Akureyrar. Í sumar eru allar verurnar ruslatröll.