Engar ruslaverur til að mynda í sumar

Prjónaðar ruslaverur sem prýtt hafa rusladalla Akureyrarbæjar undanfarin fjögur sumur eru nú hvergi sjáanlegar og ekki er útlit fyrir að fígúrurnar muni gleðja heimamenn og gesti í sumar.
Það er listakonan Jonna Jónborg Sigurðardóttir sem er höfundur þessara óvenjulegu útilistaverka sem prýtt hafa ruslatunnurnar í bænum fjögur sumur í röð. Verkin hafa glatt bæði bæjarbúa og gesti og verið sérlega vinsælt myndefni hjá ferðamönnum sem hafa verið duglegir að deila myndunum á samfélagsmiðlum.
Hætt að vinna ókeypis
Akureyri.net sló á þráðinn til Jonnu til að forvitnast um það hvort ferðamenn geti myndað sig með svöngu ruslaverunum í sumar. Sagðist Jonna síður eiga von á því þar sem hún væri, eins og fleiri listamenn, hætt að vinna ókeypis. Segist hún undanfarin ár hafa fengið 50% styrk frá SSNE fyrir verkefninu og Akureyrarbær hafi einnig styrkt hana um 25%, þó ekki í fyrra þar sem hún var bæjarlistamaður, en þá hafi hún sjálf borið 50% af kostnaðinum. Í ár bauð hún hins vegar Akureyrarbæ að leigja ruslaverurnar fyrir verð sem svaraði kostnaði við að hreinsa þær, laga og koma þeim upp. Ekkert svar hefur borist frá bænum og ruslaverurnar eru því enn í geymslu hjá henni. Aðspurð hvort það kæmi til greina að setja verurnar upp í öðrum bæjarfélögum segist hún nú ekki hafa hugsað út í það en útilokar ekki þá hugmynd.
Ruslaverur Jonnu voru orðnar átta talsins. Þær voru staðsettar í miðbæ Akureyrar, í Hrísey og Grímsey. Mynd: SNÆ