Leið 57 – Færri ferðir og minni vagnar
Breytinga er að vænta hjá landsbyggðastrætisvögnunum á nýju ári, eins og Akureyri.net sagði frá í gær, ekki síst á leið 57, sem keyrir milli Akureyrar og Reykjavíkur.
Fer ekki lengur um Akranes
Nú keyrir leið 57 tvisvar á dag milli Reykjavíkur og Akureyrar, nema á fimmtudögum og laugardögum, þá er bara ein ferð í boði. Frá og með áramótum verður hins vegar aðeins farið einu sinni frá Reykjavík og einu sinni frá Akureyri á dag alla daga vikunnar.
Þá mun ferðatíminn milli Akureyrar og Reykjavíkur styttast þar sem leið 57 mun ekki lengur keyra inn á Akranes heldur mun ný leið, leið 50, sjá um ferðir milli Reykjavíkur, Akraness og Borgarness. Þessi breyting er m.a gerð vegna þess að mesta notkun á leið 57 er milli Reykjavíkur og Borgarness, eða 88% farþega. Með því að sleppa við að keyra um Akranes styttist ferðatíminn að meðaltali um 10 mínútur. Með akstri innan Akureyrarbæjar m.a. að heimavist MA/VMA og að flugvellinum er heildarlengd leiðarinnar þó samkvæmt tímatöflu svipuð og áður, eða tæp 6,5 klst.

Mynd: stræto.is
Vagnar keyra innan vetrarþjónustutíma Vegagerðar
Tímasetningar á ferðum vagnanna eru líka að breytast. Þannig hentar leiðin betur fyrir skólafólk þar sem tímatöflur passa á föstudögum við skólatíma framhaldsskólanna á Akureyri og á Sauðárkróki. Þá mun leið 57 keyra innan vetrarþjónustutíma Vegagerðarinnar sem þýðir að vagninn mun aka yfir Öxnadalsheiði áður en vetrarþjónustu lýkur á kvöldin. Á nýju ári verður líka boðið upp á minni vagn á þessari leið, 43 sæta, sem er öruggari valkostur upp á vetrarfærð og vindhviður.
Hentar vel fyrir skólafólk
Nokkrar stoppistöðvar munu bætast við innanbæjar á Akureyri á leið 57. Áfram verður stoppað við Hof en við bætist akstur á flugvöllinn sem verður endastöðin í stað Hofs. Þá verður Þórunnarstræti ekið á sunnudögum á leggnum Reykjavík-Akureyri sem hentar vel fyrir nemendur á heimavist MA og VMA sem eru að koma úr helgarfríi.
Þá er einnig stefnt að því að farþegar landsbyggðavagnanna geti áður en langt um líður nýtt sér Klappið, rafrænt greiðslu- og miðakerfi Strætó bs. Nánari upplýsingar um nýja leiðarkerfið koma inn á heimasíðu Vegagerðarinnar og Strætó bs. í nóvember.