Fara í efni
Niceair

Niceair: Düsseldorf og París á næsta ári?

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Miklar líkur eru á að Niceair hefji áætlunarflug á milli Akureyrar og þýsku borgarinnar Düsseldorf á næsta ári skv. heimildum Akureyri.net. Stefnt er að fyrsta flugi í mars eftir því sem næst verður komist. Þá er einnig á teikniborðinu að Niceair fljúgi á milli Akureyrar og Parísar, höfuðborgar Frakklands, og standa vonir til þess að það flug hefjist einnig á næsta ári.

Niceair býður nú upp á flug frá Akureyri til Kaupmannahafnar og Tenerife, til stóð að fljúga einnig til London frá byrjun og til Manchester frá og með haustinu, en ekki varð af flugi til Englands í bili eins og margoft hefur verið fjallað um í fréttum. Unnið er að lausn málsins og vonast er til að áætlunarflug til borganna tveggja geti hafist eftir áramót.

Auk þess að undirbúa flug til Parísar og Düsseldorf hyggst Niceair bæta við öðrum sólarstað, en ferðir til Tenerife hafa notið mikilla vinsælda. Akureyri.net hefur ekki tekist að grafa upp hver nýi staðurinn er.

Düsseldorf, sem er við ána Rín í suðvesturhluta Ruhr-héraðsins, er höfuðborg sambandslandsins Nordrhein-Westfalen (Norðurrín-Vestfalíu). Íbúar borgarinnar eru rúmlega 600 þúsund. Stutt er þaðan til borganna Duisburg, Mönchengladbach, Wuppertal og Köln, einnig er tiltölulega stutt til Hollands og Belgíu.

Vert er að geta þess að frá Düsseldorf er mögulegt að fljúga til liðlega 100 borga, einkum í Evrópu.