Karl keypti Bjórböðin: Framhaldið í mótun
Nýverið var gengið frá sölu Bjórbaðanna á Árskógssandi. Nýr eigandi baðanna segir framhaldið ekki ákveðið ennþá en þó sé ljóst að engin starfsemi verði þar næstu mánuðina.
Agnes Sigurðardóttir og fjölskylda, sem eiga og reka Bruggsmiðjuna á Árskógssandi, hófu rekstur Bjórbaðanna árið 2017 en settu böðin í söluferli í fyrra. Meginástæða þess var erfitt fjárhagslegt umhverfi í covid-faraldrinum, sem þyngdi reksturinn verulega. Að sögn Jóhanns Más Kristinssonar, markaðs- og sölustjóra Bruggsmiðjunnar, mun aukin áhersla nú vera lögð á starfsemi bjórverksmiðjunnar og þar séu mörg tækifæri til staðar til að vaxa og koma með nýjungar. „Það hafðist að selja böðin og gríðarlega mikil ánægja með það. Kaupendurnir eru spennandi og sjá fyrir sér uppbyggingu á svæðinu sem er mikið gleðiefni fyrir okkur og fyrir Árskógssand,“ sagði Jóhann Már við akureyri.net. Þá munu þau halda áfram að reka Hótel Kalda, sem þó verður lokað yfir háveturinn.
Nýr eigandi er ekki búinn að ákveða framhaldið
Nýr eigandi Bjórbaðanna er Karl Sigfússon og í spjalli við akureyri.net sagðist hann ekki vera búinn að ákveða nákvæmlega hvað hann muni gera en segir að kaupin á böðunum hafi mætt mikilli jákvæðni. „Þetta er í mótun, það er búið að loka Bjórböðunum í bili um óákveðinn tíma. Ég var bara að taka við þessu núna og umfangið og tímasetningar eru ekki komin á hreint. Þetta þarf bara að fá að mótast aðeins, ég er ekki búinn að ákveða framhaldið,“ segir Karl en segist stefna að því að byggja upp gistingu á staðnum.
Aðspurður um hvort hann sé með reynslu úr ferðaþjónustu segir Karl svo ekki vera. „Ekki úr rekstri ferðaþjónustu en ég hef byggt nokkur hótel úti á landi, það er bakgrunnurinn og það er minn heimavöllur,“ segir hann og bætir við að hann sé að vinna á Akureyri um þessar mundir. Karl rekur verktakafyrirtæki á sviði byggingaframkvæmda sem heitir BEKA og það er aðalverktakinn við byggingu gagnavers atNorth á Akureyri. Þá var BEKA aðalverktaki við Hótel Jökulsárlón í Suðursveit, ásamt því að sjá um verkefna- og byggingarstjórn á nokkrum hótelum Fosshótela. Þá var fyrirtækið einnig aðalverktaki við byggingu gagnaveranna á Blönduósi og í Reykjanesbæ.