Fara í efni
Niceair

Fjórði hver Akureyringur hefur flogið með Niceair

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Á fyrstu sjö mánuðum Niceair fóru um níu þúsund manns samtals tæplega nítján þúsund ferðir milli Akureyrar og Kaupmannahafnar, Berlínar, Edinborgar og Tenerife. Um það bil þrír af hverjum fjórum farþegum voru Akureyringar eða aðrir Eyfirðingar, en erlendir ferðamenn um 12%. Athygli vekur að u.þ.b. fjórði hver Akureyringur hefur tekið flugið með Niceair, að öllum aldurshópum meðtöldum.

Þetta er meðal fyrstu niðurstaðna rannsóknar á samfélagslegum áhrifum af beinu millilandaflugi á Akureyri sem stýrt er af Þóroddi Bjarnasyni rannsóknaprófessor í byggðafræði við Háskólann á Akureyri og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknin er unnin af kennurum og nemendum við báða háskólana í samstarfi við Niceair.

Ein áhugaverðasta nýsköpunin

Rannsóknin sem standa mun til ársloka 2023 hlaut styrk sem eitt af áhersluverkefnum SSNE 2023 og er jafnframt styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Rannsóknin byggir á fjölþættum aðferðum en þar á meðal má nefna ópersónugreinanlegar upplýsingar um samsetningu farþegahópsins, spurningakannanir um borð í flugi Niceair og almenna viðhorfakönnun meðal íbúa á Norður- og Austurlandi.

Þóroddur Bjarnason rannsóknaprófessor í byggðafræði við Háskólann á Akureyri og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands stýrir rannsókninni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Stofnun Niceair er ein áhugaverðasta nýsköpunin á sviði byggðamála á Íslandi á síðari árum“, segir Þóroddur Bjarnason. „Í Evrópu eru ýmis dæmi um að aðilar í heimabyggð hafi stofnað flugfélög til að tengja stærri bæi og smærri borgir betur við umheiminn. Þessi félög eru með eina eða tvær leiguvélar í rekstri og fljúga yfirleitt til einnar stórborgar og svo til ýmissa sólarstranda.“

Góð sætanýting - aukin lífsgæði

Þóroddur telur dæmið um Niceair hins vegar vera nokkuð sérstakt vegna landfræðilegrar legu og stærðar landsins. „Eyjasamfélög eru auðvitað svolítið sérstök vegna þess að þau eiga almennt ekki landamæri að öðrum löndum og allar utanlandsferðir fara því um hafnir og flugvelli. Hér á landi má segja að Keflavíkurflugvöllur hafi verið eina tenging landsmanna við umheiminn, að farþegaskipum undanskildum. Með millilandflugi frá Akureyri hefur opnast önnur gátt og íbúar á Norður- og Austurlandi færst mörgum klukkustundum og allt að sólarhring nær umheiminum.“

Þessir fyrstu mánuðir hafa svarað ýmsum mikilvægum spurningum um forsendurnar fyrir beinu millilandaflugi frá Akureyri, að sögn Þórodds. Þannig hefur sætanýting verið mjög góð og mikill áhugi á fluginu meðal Norðlendinga. Könnun RHA haustið 2022 sýndi til dæmis að mikill meirihluti Norðlendinga töldu lífsgæði sín hafa batnað með reglubundnu áætlunarflugi frá Akureyri og um þrír af hverjum fjórum sögðust ætla að notfæra sér flugið á næstu sex mánuðum. Um fjórðungur Akureyringa hafði þegar notfært sér flugið sem stemmir við upplýsingar úr farþegaskrá Niceair.

Þriðjungur á leið í tengiflug

Þá hefur Niceair sýnt fram á að þrátt fyrir landfræðilegar hindranir er hægt að halda uppi reglubundnu millilandaflugi frá Akureyri allt árið um kring. Seinkanir vegna veðurs hafa verið fátíðar og raunar virðist veður hafa verið minni hindrun fyrir millilandaflug frá Akureyri en Keflavík á síðustu vikum og mánuðum. Það skiptir ekki síst máli þar sem fyrstu tölur benda til þess að um þriðjungur farþega Niceair til Kaupmannahafnar séu á leiðinni í tengiflug.

Stóra spurningin er hins vegar hvaða áhrif það hafi á samfélög og byggðaþróun á Norðurlandi að leiðin milli Akureyrar og Kaupmannahafnar sé til dæmis 2,5 – 3 klukkustundir í stað þess að ferðast þurfi mörg hundruð kílómetra í öfuga átt með tilheyrandi ferðatíma og kostnaði. „Við þekkjum það að miklu minni styttingar sem tengja miklu minni staði saman eins og til dæmis Héðinsfjarðargöngin hafa haft gríðarleg áhrif, bæði á ferðaþjónustu og daglegt líf íbúanna sem tengjast stærri stöðum. Það má því gera úr því skóna að þessi mikla stytting milli Akureyrar og erlendra stórborga muni hafa margvísleg áhrif á Norðurlandi“ segir Þóroddur að lokum. „Þessu rannsóknaverkefni um samfélagsleg áhrif millilandaflugs á Norðurlandi er ætlað að svara því.“

Gögn úr rannsókn Þórodds: Farþegar Niceair janúar til desember 2022 sem hlutfall af íbúafjölda á einstökum svæðum