Minjasafnið á Akureyri
Ætla Minjasafninu að efla Iðnaðarsafnið
30.11.2023 kl. 13:57
Bæjarráð Akureyrarbæjar samþykkti í morgun að unnið verði að gerð þjónustusamnings við Minjasafnið á Akureyri um rekstur Iðnaðarsafnsins næstu þrjú árin.
Fram kom í fréttum fyrr í vikunni að Þorsteinn Einar Arnórsson hafi sagt sig úr stjórn Iðnaðarsafnsins vegna óánægju hans með þær hugmyndir sem fram hafa komið um hvernig rekstri og opnun safnsins verði háttað undir stjórn Minjasafnsins. Hjá mörgum sem hafa tjáð sig um úrsögn Þorsteins hefur komið fram gremja vegna málsins enda hefur Þorsteinn setið í stjórn safnsins frá upphafi og hefur yfirgripsmikla þekkingu á sögu iðnaðar á Akureyri.
Akureyri.net leitaði eftir viðbrögðum við úrsögn Þorsteins og orðum hans, og um málið í heild. Þórgnýr Dýrfjörð, forstöðumaður atvinnu- og menningarmála hjá Akureyrarbæ, segir viðbúið að einhver verði ósátt við þessar breytingar. „Satt er að það eru skiptar skoðanir um þá hugmynd að færa rekstur Iðnaðarsafnsins í hendur Minjasafnsins. En Akureyrarbær hefur sem sagt kveðið upp úr fyrir sitt leyti að sú leið sé skynsamlegri en að halda áfram sjálfstæðum rekstri Iðnaðarsafnsins. Báðar leiðir er ekki hægt að fara og því viðbúið að einhver verði ósátt,“ segir Þórgnýr.
Unnið verði að gerð nýs þjónustusamnings
Bæjarráð tók málið fyrir á fundi í morgun. Í fundargerð ráðsins kemur fram að í safnastefnu Akureyrarbæjar sé kveðið á um aukinn stuðning bæjarins við varðveislu sögu iðnaðar á Akureyri og jafnframt að kannaður verði fýsileiki þess að sameina rekstur Iðnaðarsafnsins á Akureyri og Minjasafnsins á Akureyri. Lögð var fram til umræðu tillaga um að Minjasafnið taki að sér rekstur Iðnaðarsafnsins með þjónustusamningi.
Bókun bæjarráðs um málið er svohljóðandi:
„Bæjarráð samþykkir að unnið verði að gerð þjónustusamnings við Minjasafnið á Akureyri um rekstur Iðnaðarsafnsins næstu þrjú árin. Helstu markmið og verkefni samningsins verði meðal annars að efla starfsemi Iðnaðarsafnsins, tryggja stöðu þess sem viðurkennt safn hjá Safnaráði og tryggja áframhaldandi verndun og skráningu iðnaðarsögunnar. Einnig verði lögð áhersla á að nota fyrsta árið til að starfsfólk Minjasafnsins kynnist eiginleikum og samsetningu Iðnaðarsafnsins af eigin raun og að fagþekking og reynsla þeirra nýtist strax í þágu Iðnaðarsafnsins, til dæmis í sameiginlegum markaðs- og kynningarmálum, í fræðslu til skólahópa og í umsóknum um styrki til starfseminnar. Verði þessi samningur að veruleika vonast bæjarráð til þess að gott samstarf takist á milli Minjasafnsins og Hollvina Iðnaðarsafnsins þannig að þeirra reynsla nýtist áfram við varðveislu þessarar mikilvægu sögu.“
Fjárfest í fagþekkingu á sviði minjaverndar
Fram kemur í drögum að tillögu um framtíð Iðnaðarsafnsins að helstu rökin fyrir því að Minjasafnið taki að sér rekstur Iðnaðarsafnsins séu meðal annars að stöðu Iðnaðarsafnsins sem viðurkennds safns sé ógnað og örugg leið til að tryggja þá stöðu sé að Minjasafnið taki að sér reksturinn.
Þá kemur fram að Akureyrarbær sé sá aðili sem lagt hefur fram mestan beinan stuðning við rekstur Iðnaðarsafnsins. Frá árinu 2010 hafi sá stuðningur numið um 91 milljón króna miðað við verðlag hvers árs, sem skiptist í 64 milljónir í húsaleigu, 5,6 milljónir í rekstrarkostnað og 21,2 milljónir í bein framlög.
Á Iðnaðarsafninu kennir ýmissa grasa. Myndin er af Facebook-síðu safnsins.
Í drögunum er einnig lögð áhersla á að með framlagi til rekstrar Minjasafnsins, þar sem Akureyrarbær leggur í samræmi við íbúafjölda mest til reksturs þess, um 67,5 milljónir á þessu ári, sé fjárfest í fagþekkingu á sviði minjaverndar sem nýtist í öðrum verkefnum sem bærinn sinnir á því sviði. Með því að Minjasafnið taki að sér rekstur Iðnaðarsafnsins nýtist þessi fjárfesting í fagfólki og þekkingu mun betur en ef Iðnaðarsafnið yrði áfram rekið sem sér eining.
Þá er vísað til þess að Akureyrarbær hafi nú þegar góða reynslu af þjónustusamningum við Minjasafnið um rekstur Nonnahúss og Davíðshúss.
Kostirnir vegi þyngra en mögulegir gallar
Bent er á að rekstur Iðnaðarsafnsins breytist frá því að vera starfsemi með einn starfsmann á launum yfir í að vera teymisverkefni.
„Minjasafnið annast skráningu og varðveislu héraðssögu Eyjafjarðar og iðnaðarsaga Akureyrar er afar veigamikill hluti þeirrar sögu. Með tilkomu Iðnaðarsafnsins á sínum tíma hætti Minjasafnið skráningu iðnaðarsögunnar að mestu. Þótt í byrjun hafi verið skynsamlegt að hafa sérrekið og sjálfstætt safn um iðnaðarsöguna, safn sem sannarlega hefur lyft grettistaki, þá er ekki augljóst að svo verði um alla framtíð. Frá sjónarhóli Akureyrarbæjar sem leggur mest til starfsemi beggja safna má spyrja: Hvers vegna skyldi skráning og varðveisla þessarar sögu ekki vera á einni hendi?
Kostir sameiningar vega vafalítið mun þyngra en mögulegir gallar, svo sem að hugsanlega verði Hollvinir Iðnaðarsafnsins ekki reiðubúnir að leggja til vinnu og þekkingu eftir sameiningu, að opnunartími skerðist, að rekstrarkostnaður aukist (sem er um leið forsenda framfara) og að dýrara verði fyrir Minjasafnið að halda úti safnastarfi í mörgum byggingum.“
Fjölbreytilegt úrval af skóm sem eru hluti af iðnaðarsögu Akureyrar. Myndin er af Facebook-síðu Iðnaðarsafnsins.
Ekki þurfi að slíta sjálfseignarstofnuninni
Samkvæmt tillögudrögunum er hugmyndin að gert verði samkomulag milli stofnaðila Iðnaðarsafnsins, Akureyrarbæjar, Einingar-Iðju, Byggiðn - félags byggingarmanna, og Hollvinafélags Iðnaðarsafnsins um að Akureyrarbær annist gerð þjónustusamnings við Minjasafnið um rekstur Iðnaðarsafnsins. Með því móti þurfi ekki að slíta sjálfseignarstofnuninni eða afhenda hana öðrum.
Þá verði gerður þjónustusamningur milli Akureyrarbæjar og Minjasafnsins um rekstur Iðnaðarsafnsins til þriggja ára. Með því þurfi ekki að ráðast í breytingar á stofnskrá Minjasafnsins vegna reksturs Iðnaðarsafnsins. Stjórn Minjasafnsins muni þá starfa sem stjórn Iðnaðarsafnsins á samningstímanum.
Áðurnefnd drög að tillögunni eru fylgiskjal með bókun bæjarráðs - smellið hér til að lesa skjalið í heild.
Stefnt er að því að þjónustusamningur um rekstur Iðnaðarsafnsins gildi frá 1. janúar 2024 til 31. desember 2026.