Fara í efni
Miðgarðakirkja

Nýr slökkvibíll á flugvöllinn í Grímsey

Nýju bílarnir vígðir á Reykjavíkurflugvelli, þaðan sem þeir fóru út á land til nýrra verkefna. Mynd: Isavia

Fjórum nýjum, sérútbúnum slökkvibílum var ekið af stað í gær frá Reykjavíkurflugvelli á fjóra innanlandsflugvelli víða um land þar sem þeir verða afhentir til notkunar, segir í fréttatilkynningu frá Isavia. Einn af þessum fjórum flugvöllum er Grímseyjarflugvöllur, en auk þess verða nýir bílar afhentir á Bíldudal, Gjögri og á Hornafirði.

Bylting í öryggi og meira vatnsmagn

„Stærsta breytingin er í sambandi við vatnsmagn sem þessi bíll getur flutt, en hann tekur 2400 lítra af vatni á meðan sá gamli tók 1200. Auk þess erum við að yngja tækjabúnaðinn um þónokkur ár og eflaust talið í tugum,“ segir Hermann Jóhannesson, umdæmisstjóri hjá Isavia og flugvallastjóri á Akureyrarflugvelli. „Við erum að tryggja öryggi farþega um og í kringum Grímseyjarflugvöll, og þó að gamli bíllinn hafi verið í fullkomnu lagi þá er bara snúnara að viðhalda gömlum tækjum.“

Nýju bílarnir eru af gerðinni Ford 550, og eru með 2400 lítra vatnstanki, duftkút og 290 lítra léttavatnstanki sem dugar til blöndunar í fjórar áfyllingar af vatni. Það þýðir að ekki þarf að geyma auka lager af léttavatni á hverjum stað fyrir sig eins og á eldri bifreiðunum, heldur er allt auka léttavatn tilbúið á bílunum.

Bílarnir munu einnig auka öryggi og bæta viðbragð hjá staðarslökkviliðum

Bíllinn nýi er kominn til Akureyrar þegar þetta er skrifað, en Hermann segir að núna sé verið að þjálfa ákveðinn mannskap á Akureyri í viðhaldi og að nota bílinn. „Við fórum á stutt námskeið fyrir sunnan og erum núna að dreifa fróðleik á milli vaktstjóra. Þegar það koma ný tæki er mikilvægt að læra vel á þau. Ég vonast svo eftir að koma honum á ferjuna út í eyju sem fyrst,“ segir hann.

 

Bílarnir fjórir eru allir eins, af gerðinni Ford 550. Mynd: Isavia

Sérstakur styrkur frá Innviðaráðuneytinu

„Það er mikið fagnaðarefni að taka á móti þessum slökkvibílum sem eiga eftir að styrkja til muna neyðarviðbúnað á flugvöllunum sem um ræðir og í nágrenni þeirra,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia Innanlandsflugvalla. „Innanlandsflugvellir fengu sérstakt framlag frá Innviðaráðuneytinu á árunum 2024-2025 til að hefja endurnýjun á mikilvægasta öryggisbúnaði flugvallanna og var ákveðið að endurnýjun á þessum bílum væri brýnasta verkefnið.“

Aukið öryggi

Enn einn kostur við nýju bílana er að þeir eru búnir svokölluðum „Pump and Roll“ búnaði, sem gerir það að verkum að einn aðili getur unnið á bílnum, það er að segja keyrt, stýrt stuðarabyssunni (e. Turretinu) og sprautað úr tankinum. 

„Bílarnir munu einnig auka öryggi og bæta viðbragð hjá staðarslökkviliðum því að mjög góð samvinna er á milli Innanlandsflugvalla og slökkviliðanna í héraði,“ bætir Sigrún Björk við að lokum.
Samkvæmt fréttatilkynningu Isavia er áætlað er að bílarnir fjórir verði allir komnir á áfangastað í lok mánaðarins.