Helgi segir sögu MA í sex sjónvarpsþáttum
Helgi Jónsson rithöfundur hefur gert sex 30 mínútna sjónvarpsþætti um gamla skólann sinn – Menntaskólann á Akureyri. Þar er sögð saga þeirrar merku stofnunar með samtölum við tvo skólameistara auk þess sem gamlir nemendur segja sögur frá veru sinni í MA.
Helgi, sem rak árum saman bókaútgáfuna Tind, birtir þættina á youtubrásinniTindur TV og þar er einnig að finna ýmislegt annað mannlífsefni frá síðustu árum. Fjórir MA-þættir af sex eru komnir á netið.
- Tengill á þættina er neðst í fréttinni
Tryggvi Gíslason, skólameistari MA 1972 til 2003, og Helgi Jónsson ræðast við á Sal Gamla skóla.
„Menntaskólinn á Akureyri er líklega elsta menntastofnun landsins, ef marka má orð Tryggva Gíslaonar, skólameistara MA 1972-2003,“ segir Helgi við Akureyri.net.
Ólafsfirðingurinn Helgi er MA-stúdent, brautskráðist 17. júní 1982. „Þegar maður er ungur, kærulaus og lítt hugsandi drengur, er pælingin ekki sú hvað þetta sé nú merkilegt – húsið, stofurnar, byggingin, vistin, kennararnir – þá lifði maður fyrir stundina, augnablikið, sem stundum entist nóttina – skemmtistaðirnir H100 og Sjallinn og nokkur partí – en það er ekki fyrr en frá líður að maður kann að meta það sem upp á var boðið, kann að meta kennsluna, að maður tali nú ekki um kennarana og persónur þeirra. Ekki má gleyma vistinni. Eða brakinu á langagangi.“
Menntaskólinn á Akureyri – Gamli skóli – í kvöldbirtu.
Gamall draumur
„Ég hafði lengi gengið með þann draum að segja eitthvað frá MA – en vissi ekki hvernig. Svo datt ég ofan á þá hugmynd að tala við tvo skólameistara, Tryggva Gíslason og Jón Má Héðinsson, þar sem þeir segja frá ýmsu að fornu og nýju, og láta síðan eldri stúdenta segja eins og eina sögu af sjálfum sér,“ segir Helgi.
„Þegar ég byrjaði á þessu var elsti þálifandi stúdentinn Hulda Kristjánsdóttir, fædd í Norðfirði, búsett á Hrafnistu í Hafnarfirði. Ég var svo vitlaus að spyrja hana hvað hefði mest breyst síðan hún var í skóla:
Veistu, þegar ég kom í MA fjórtán ára og var á vistinni, þá mátti ég hringja heim til mömmu einu sinni fyrir jól.
Hulda varð stúdent í júní 1939, nokkrum mánuðum áður en Hitler réðst inn í Pólland, og allt breyttist.“
Fjórir elstu stúdentarnir, sem rætt er við í fyrsta þættinum, Hulda Kristjánsdóttir, Halldór Þorsteinsson, sonur Þorsteins M. Jónssonar skólastjóra, Kristmundur Bjarnason sagnfræðingur á Sjávarborg, og Ingvar Gíslason, ritstjóri og ráðherra, bróðir Tryggva skólameistara, eru allir látnir.
„Síðan tekur hver við af öðrum; hver áratugur fyrir sig,“ segir Helgi, sem gerir þættina í samstarfi við Friðþjóf Helgason kvikmyndatökumann.
Væntumþykja og virðing
„Þessir þættir hafa verið nokkuð lengi í vinnslu. Ég plataði Tryggva norður til að spjalla og við settumst á rökstóla – og síðan slóst Jón Már í hópinn. Það er í raun ekki hægt að segja sögu Menntaskólans á Akureyri í einni sjónvarpsseríu, þótt þetta heiti SAGA Menntaskólans, enda þótt viðleitnin sé í þá átt,“ segir Helgi Jónsson.
„Tilgangur minn er ekki flókinn. Ég vil sýna skólanum væntumþykju mína, virðingu mína, í verki. Hann fóstraði mig í fjögur ár, og mótaði mig að miklu leyti. Sjálfur á ég ljúfar minningar úr menntaskóla, þótt flestar þeirra séu utan dagskrár og ekki birtingarhæfar, en eins og Sigmundur Ernir Rúnarsson segir í einum þættinum: Skólinn er til að mennta og kæta, ekki bara á bókina. Félagslífið þroskar okkur.“
Helgi segir að honum þyki vænt um Menntaskólann. „Hann gerði mig örugglega skárri en annars hefði orðið. Ég kynntist svo mörgu góðu fólki, sem hafa verið vinir mínir alla tíð síðan, ég kynntist kennurum sem sumir hverjir höfðu ómælanleg áhrif á mig, ég nefni Gísla Jónsson fyrstan, en ég kynntist líka Tryggva sjálfum, Tómasi Inga Olrich og Valdimar Gunnarssyni – að ógleymdum Bárði latínukennara. Sigríður Pálina Erlingsdóttir og Tómas Ingi reyndu að kenna mér frönsku í þrjú ár en komust lítt áleiðis. Það eina sem ég man er Je t'aime!“
Helgi bendir á að hann hafi ekki farið í MA „til að verða góður á bókina. Nei, ég gerði samning við pabba gamla, því ég ætlaði til Bandaríkjanna strax eftir gagnfræðaskóla og skrifa bíómyndir, en pabbi fékk mig til að prófa MA í einn vetur og sjá svo til hvort þetta væri ekki í lagi.“
Hann bætir við: „Þessi fyrsti vetur reyndist svo skemmtilegur – mannlífsrannsóknir okkar strákanna urðu skrattanum skringilegri – að ég gleymdi Bandaríkjunum og elti vini mína upp um allar brekkur. Og jafnvel niður brekkur líka. Aðallega í Sjallann!“ segir hann. „Reyndar var orðið svo gaman í 6. bekk að ég og besti vinur og frændi, Kiddi Hreins, ásamt Dóra úr Svarfaðardal, ákváðum á falla á vorprófum, til að fá einn vetur enn. Við Kiddi klúðruðum því – nema hvað. Því neyddumst við til að útskrifast þarna þetta undravor þegar Brassar urðu ekki heimsmeistarar í fótbolta. En Dóra tókst það og fékk eitt ár í viðbót, og það með stæl og dýfu. Ég öfundaði hann alltaf af því.“
Smellið hér til að fara á youtube síðu Tinds þar sem finna má MA-þættina og ýmsilegt annað efni Helga Jónssonar.
Smellið hér til að fara á Facebook Helga Jónssonar.