Frábær sigur KA í jöfnum leik á Selfossi

KA gerði góða ferð á Selfoss fyrr í dag þegar liðið lagði heimamenn að velli 33:30 í fyrstu umferð efstu deildar Íslandsmóts karla í handbolta. Leikurinn var mjög jafn nánast allan tímann og það var ekki fyrr en á síðustu 10 mínútunum að KA náði að hrista nýliðana af sér og hala inn mikilvægan sigur.
Selfyssingar byrjuðu betur og um miðjan fyrri hálfleik voru þeir komnir fjórum mörkum yfir, 9:5, eftir að hafa skorað 4 mörk í röð. KA-menn náðu að stoppa í götin og minnka muninn jafnt og þétt. Í leikhléi voru Selfyssingar einu marki yfir, 16:15.
Síðari hálfleikur var hnífjafn lengst af og yfirleitt munaði aldrei meira en einu marki á liðunum. Um miðjan hálfleikinn var staðan jöfn, 24:24, en fljótlega eftir það náði KA yfirhöndinni. Þegar um 9 mínútur voru eftir náði KA í fyrsta sinn þriggja marka forskoti, 29:26, þegar Morten Boe Linder skoraði eftir gegnumbrot. Selfyssingar komust aldrei nær þeim eftir þetta og KA landaði þriggja marka seiglusigri, 33:30.
Bjarni Ófeigur Valdimarsson var markahæstur KA-manna á Selfossi í dag með 9 mörk. Hér er hann á æfingu í KA-heimilinu í gær.
Sannarlega frábær byrjun hjá KA-liðinu og mikilvægur sigur í höfn. Nýliðum Selfoss er spáð neðsta sætinu í deildinni en enginn leikur er unninn fyrirfram og KA þurfti að hafa fyrir hlutunum í dag. Bruno Bernat var í stuði í markinu og varði 16 skot. Norðmaðurinn Morten Boe Linder virðist koma sterkur inn í liðið og gerði 7 mörk úr 9 skotum. Bjarni Ófeigur Valdimarsson var annars markahæstur með 9 mörk, þar af 3 úr víti, og Jens Bragi Bergþórsson var með 6. Logi Gautason skoraði 5 mörk og þeir Einar Birgir Stefánsson og Giorgi Arvelodi Dikhaminjia voru með 3 mörk hvor.
Næsti leikur KA verður í KA-heimilinu næstkomandi föstudagskvöld kl. 19, þegar Haukar koma í heimsókn.